Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 100

100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!

Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!

Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.

Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.

Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.

Esekíel 45:1-9

45 Þegar þér skiptið landinu með hlutkesti til arfleifðar, skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf af því, heilaga landspildu, 25.000 álna á lengd og 20.000 álna á breidd. Skal hún heilög vera innan takmarka sinna í allar áttir.

(Þar af skal falla undir helgidóminn ferhyrndur flötur, fimm hundruð álna á hvern veg, og fimmtíu álna teigur skal vera kringum hann.)

Af þessum mælda reit skalt þú mæla spildu 25.000 álna langa og 10.000 álna breiða. Á henni skal helgidómurinn, hinn háheilagi, standa.

Það er helgigjöf í jarðeign. Skal hún tilheyra prestunum, þeim er gegna þjónustu við helgidóminn og nálgast mega Drottin til að þjóna honum. Skal það vera húsastæði handa þeim og tilheyra helgidóminum sem heilagt svæði.

Og 25.000 álna löng landspilda og 10.000 álna breið skal falla undir levítana, þá er þjónustu gegna við musterið, sem þeirra land fyrir borgir til þess að búa í.

Og sem fasteign borgarinnar skuluð þér tiltaka 5.000 álna breiða spildu og 25.000 álna langa, jafnlanga hinni heilögu fórnargjöf. Skal hún vera eign allra Ísraelsmanna.

En handa landshöfðingjanum skuluð þér tiltaka landshluta beggja vegna við helguðu landspilduna og borgarreitinn, meðfram hinni helguðu landspildu og meðfram borgarreitnum, vestanmegin til vesturs og austanmegin til austurs, og skal hann vera jafnlangur einum erfðahluta ættkvíslanna og ná frá vesturtakmörkum til austurtakmarka landsins.

Þetta skal vera landeign hans í Ísrael, svo að höfðingjar mínir veiti eigi framar þjóð minni yfirgang, heldur fái Ísraelsmönnum landið eftir ættkvíslum þeirra.

Svo segir Drottinn Guð: Látið yður nægja þetta, þér Ísraels höfðingjar! Látið af ofríki og yfirgangi, en iðkið rétt og réttlæti! Látið af að reka þjóð mína af eignum hennar! _ segir Drottinn Guð.

Postulasagan 9:32-35

32 Svo bar við, er Pétur var að ferðast um og vitja allra, að hann kom og til hinna heilögu, sem áttu heima í Lýddu.

33 Þar fann hann mann nokkurn, Eneas að nafni, er í átta ár hafði legið rúmfastur. Hann var lami.

34 Pétur sagði við hann: "Eneas, Jesús Kristur læknar þig, statt upp og bú um þig." Jafnskjótt stóð hann upp.

35 Allir þeir, sem áttu heima í Lýddu og Saron, sáu hann, og þeir sneru sér til Drottins.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society