Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.
3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.
7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
26 En uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, var að sjá sem safírsteinn væri, í lögun sem hásæti, og þar uppi á hásætinu, sem svo sýndist, var mynd nokkur í mannslíki.
27 Sú mynd þótti mér því líkust sem glóandi lýsigull væri þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera og upp eftir, en ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir þótti mér hún álits sem eldur, og umhverfis hana var bjarmi.
28 Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýjum stendur, þegar rignir. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Og er ég sá hana, féll ég fram á ásjónu mína, og ég heyrði rödd einhvers, sem talaði.
2 Hann sagði við mig: "Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig."
26 En Agrippa sagði við Pál: "Nú er þér leyft að tala þínu máli." Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína:
2 "Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um,
3 því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig.
4 Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem.
5 Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra.
6 Og hér stend ég nú lögsóttur vegna vonarinnar um fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum
7 og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum.
8 Hvers vegna teljið þér það ótrúlegt, að Guð veki upp dauða?
9 Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret.
10 Það gjörði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði, að þeir væru teknir af lífi.
11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.
12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum,
13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá, sem mér voru samferða.
14 Vér féllum allir til jarðar, og ég heyrði rödd, er sagði við mig á hebresku: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum.`
15 En ég sagði: ,Hver ert þú, herra?` Og Drottinn sagði: ,Ég er Jesús, sem þú ofsækir.
16 Rís nú upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til þess að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hefur séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér.
17 Ég mun frelsa þig frá lýðnum og frá heiðingjunum, og til þeirra sendi ég þig
18 að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá Satans valdi til Guðs, svo að þeir öðlist fyrir trú á mig fyrirgefningu syndanna og arf með þeim, sem helgaðir eru.`
by Icelandic Bible Society