Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
49 Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar.
2 Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.
3 Hann sagði við mig: "Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína."
4 En ég sagði: "Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum."
5 En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, _ og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur _
6 nú segir hann: "Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar."
7 Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem fólk hefir andstyggð á, við þjón harðstjóranna: Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.
71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.
2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.
3 Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.
5 Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.
6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
7 Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.
8 Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.
9 Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.
10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:
11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."
12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.
13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.
14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.
18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs.
19 Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.
20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?
21 Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.
22 Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki,
23 en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,
24 en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.
25 Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.
26 Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.
27 En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.
28 Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er,
29 til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.
30 Honum er það að þakka að þér eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn.
31 Eins og ritað er: "Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni."
20 Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni.
21 Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: "Herra, oss langar að sjá Jesú."
22 Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú.
23 Jesús svaraði þeim: "Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.
24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.
25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.
26 Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.
27 Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu:
28 Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!" Þá kom rödd af himni: "Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt."
29 Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: "Engill var að tala við hann."
30 Jesús svaraði þeim: "Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna.
31 Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.
32 Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín."
33 Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.
34 Mannfjöldinn svaraði honum: "Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?"
35 Þá sagði Jesús við þá: "Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer.
36 Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins." Þetta mælti Jesús og fór burt og duldist þeim.
by Icelandic Bible Society