Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 20

20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.

Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.

Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]

Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.

Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.

Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.

Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.

Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.

10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.

Habakkuk 3:2-15

Drottinn, ég hefi heyrt boðskap þinn, ég er hræddur. Drottinn, endurnýja verk þitt áður en mörg ár líða, lát það verða kunnugt áður en mörg ár líða. Minnst þú miskunnar í reiðinni.

Guð kemur frá Teman og Hinn heilagi frá Paranfjöllum. (Sela.) Tign hans þekur himininn, og af dýrð hans er jörðin full.

Ljómi birtist eins og sólarljós, geislar stafa út frá hendi hans, og þar er hjúpurinn um mátt hans.

Drepsóttin fer á undan honum, og sýkin fetar í fótspor hans.

Hann gengur fram, og jörðin nötrar, hann lítur upp, og þjóðirnar hrökkva við. Þá molast hin öldnu fjöll sundur, þá sökkva hinar eilífu hæðir niður, hann gengur sama veginn og forðum daga.

Ég sé tjöld Kúsans í nauðum stödd, tjalddúkarnir í Midíanslandi bifast til og frá.

Ert þú, Drottinn, reiður fljótunum, eða beinist bræði þín að þeim? Eða beinist heift þín að hafinu, úr því þú ekur með hesta þína, á sigurvagni þínum?

Ber og nakinn er bogi þinn, þú fyllir örvamæli þinn skeytum, þú klýfur vatnsföll, svo að land kemur fram.

10 Fjöllin sjá þig og skjálfa, steypiregn dynur yfir, hafdjúpið lætur raust sína drynja, réttir hendur sínar hátt upp.

11 Sól og tungl bíða kyrr í híbýlum sínum, fyrir ljósi þinna þjótandi örva, fyrir ljóma þíns leiftrandi spjóts.

12 Í gremi fetar þú yfir jörðina, í reiði þreskir þú þjóðirnar.

13 Þú fer að heiman til þess að frelsa þjóð þína, til þess að hjálpa þínum smurða. Þú brýtur niður mæninn á húsi hins óguðlega, gjörir grundvöllinn beran niður á klöpp.

14 Þú rekur lensur gegnum höfuðið á herforingjum hans, er geysast fram til að tvístra mér. Fagnaðaróp þeirra glymja, eins og þeir ætluðu að uppeta hina hrjáðu í leyni.

15 Þú fer yfir hafið með hesta þína, yfir svelg mikilla vatna.

Lúkasarguðspjall 18:31-34

31 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: "Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum.

32 Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann.

33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa."

34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society