Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
16 Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn,
17 hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur:
18 Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var.
19 Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því _ sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.
20 Dýr merkurinnar, sjakalar og strútsfuglar skulu vegsama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda.
21 Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
4 jafnvel þótt ég hafi einnig þá ytri yfirburði, sem ég gæti treyst. Ef einhver annar þykist geta treyst ytri yfirburðum, þá get ég það fremur.
5 Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins,
6 svo ákafur, að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.
7 En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists.
8 Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist
9 og reynst vera í honum. Nú á ég ekki eigið réttlæti, það er fæst af lögmáli, heldur það er fæst fyrir trú á Krist, réttlætið frá Guði með trúnni. _
10 Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans með því að mótast eftir honum í dauða hans.
11 Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum.
12 Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú.
13 Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það.
14 En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.
12 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum.
2 Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.
3 Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.
4 Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:
5 "Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?"
6 Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.
7 Þá sagði Jesús: "Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.
8 Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt."
by Icelandic Bible Society