Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
43 En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.
2 Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér.
3 Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín.
4 Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt.
5 Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri.
6 Ég segi við norðrið: "Lát fram!" og við suðrið: "Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar:
7 sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!"
19 En ég hef þá von til Drottins Jesú, að ég muni bráðum geta sent Tímóteus til yðar, til þess að mér verði einnig hughægra, þá er ég fæ að vita um hagi yðar.
20 Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. _
21 Allir leita þess, sem sjálfra þeirra er, en ekki þess, sem Krists Jesú er. _
22 En þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.
23 Hann vona ég þá að geta sent, jafnskjótt og ég sé, hvað um mig verður.
24 En ég ber það traust til Drottins, að ég muni og bráðum koma sjálfur.
by Icelandic Bible Society