Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.
2 Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
3 Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
4 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.
5 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?
6 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.
26 Drottinn talaði við Móse og sagði:
27 "Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn.
28 Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar.
29 Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni.
30 Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans.
31 Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
32 Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar."
33 Drottinn talaði við Móse og sagði:
34 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda Drottni laufskálahátíð sjö daga.
35 Fyrsta daginn skal vera helg samkoma, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.
36 Sjö daga skuluð þér færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þér halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðafundur, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.
37 Þetta eru löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur til þess að færa Drottni eldfórn, brennifórn og matfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi,
38 auk hvíldardaga Drottins og auk gjafa yðar og auk allra heitfórna yðar og auk allra sjálfviljafórna yðar, er þér færið Drottni.
39 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, er þér hafið hirt gróður landsins, skuluð þér halda hátíð Drottins sjö daga. Fyrsta daginn skal vera helgihvíld og áttunda daginn skal vera helgihvíld.
40 Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir Drottni, Guði yðar, í sjö daga.
41 Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð Drottins sjö daga á ári. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns: Í sjöunda mánuðinum skuluð þér halda hana.
19 Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: "Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors.
2 Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna."
3 Og aftur var sagt: "Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda."
4 Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: "Amen, hallelúja!"
5 Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: "Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir."
6 Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: "Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.
7 Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.
8 Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra."
by Icelandic Bible Society