Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
17 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, ber upp gátu og seg Ísraelsmönnum líking
3 og mæl: Svo segir Drottinn Guð: Örninn sá hinn mikli með stóru vængina og löngu flugfjaðrirnar, með þykka og marglita fjaðurhaminn, fór upp á Líbanon og tók toppinn af sedrustrénu.
4 Hann braut af efstu brumkvistina og flutti þá til verslunarlandsins. Í kaupmanna borg setti hann þá.
5 Síðan tók hann af gróðri landsins og setti það í sáðland, hann setti það þar sem nóg vatn var, eins og pílvið.
6 Og það óx og varð að vínvið, sem breiddist út lágvaxinn, svo að greinar hans sveigðust aftur að honum og rætur hans héldust undir honum. Og er það var orðið að vínviði, fékk það kvisti og skaut greinum.
7 En það var annar mikill örn með stóra vængi og mikinn fjaðurham, og sjá, vínviður þessi teygði rætur sínar að honum og rétti greinar sínar í móti honum, til þess að hann skyldi vökva hann, en ekki reitinn, sem hann var gróðursettur í,
8 og þó var hann gróðursettur í góðri jörð, þar sem nóg vatn var, til þess að skjóta greinum og bera ávöxtu og verða dýrlegur vínviður.
9 Seg þú: Svo segir Drottinn Guð: Mun það vel gefast? Mun hinn örninn ekki slíta upp rætur hans og afsníða ávöxtu hans, og öll hans nýsprottnu blöð visna? Og eigi mun þurfa mikilla krafta að neyta eða mannafla við að hafa til þess að kippa honum upp með rótum.
10 Nú er hann gróðursettur, en mun það vel gefast? Mun hann ekki skrælna, þegar austanvindurinn fer að leika um hann, mun hann ekki skrælna í reitnum, þar sem hann óx?"
12 Allir þeir, sem syndgað hafa án lögmáls, munu og án lögmáls tortímast, og allir þeir, sem syndgað hafa undir lögmáli, munu dæmast af lögmáli.
13 Og ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða.
14 Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál.
15 Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.
16 Það verður á þeim degi, er Guð, samkvæmt fagnaðarerindi mínu, er ég fékk fyrir Jesú Krist, dæmir hið dulda hjá mönnunum.
by Icelandic Bible Society