Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
55 Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk!
2 Hví reiðið þér silfur fyrir það, sem ekki er brauð, og gróða yðar fyrir það, sem ekki er til saðnings? Hlýðið á mig, þá skuluð þér fá gott að eta og sálir yðar gæða sér á feiti!
3 Hneigið eyru yðar og komið til mín, heyrið, svo að sálir yðar megi lifna við! Ég vil gjöra við yður eilífan sáttmála, Davíðs órjúfanlega náðarsáttmála.
4 Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.
5 Sjá, þú munt kalla til þín þjóð, er þú þekkir ekki, og fólk, sem ekki þekkir þig, mun hraða sér til þín, sakir Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlegan.
6 Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!
7 Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins, þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.
8 Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir _ segir Drottinn.
9 Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
10 Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið.
2 Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu.
3 Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu
4 og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur.
5 En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni.
6 Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það.
7 Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: "Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika."
8 Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.
9 Freistum ekki heldur Drottins, eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum.
10 Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.
11 Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.
12 Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.
13 Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.
13 Í sama mund komu einhverjir og sögðu honum frá Galíleumönnunum, að Pílatus hefði blandað blóði þeirra í fórnir þeirra.
2 Jesús mælti við þá: "Haldið þér, að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn, fyrst þeir urðu að þola þetta?
3 Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins.
4 Eða þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér, að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn, sem í Jerúsalem búa?
5 Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins."
6 En hann sagði þessa dæmisögu: "Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki.
7 Hann sagði þá við víngarðsmanninn: ,Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?`
8 En hann svaraði honum: ,Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð.
9 Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp."`
by Icelandic Bible Society