Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 105:1-15

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.

Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.

12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,

13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.

14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.

15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

Sálmarnir 105:16-41

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,

17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.

18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,

19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.

20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.

21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,

22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.

23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.

24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.

25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.

26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,

27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.

28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,

29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,

30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,

31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,

32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,

33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,

34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,

35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,

36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.

37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.

39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.

41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.

Sálmarnir 105:42

42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn

Önnur bók Móse 33:1-6

33 Drottinn sagði við Móse: "Far nú héðan með fólkið, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, til þess lands, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það.`

Ég vil senda engil á undan þér og reka burt Kanaaníta, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, _

til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, því að ekki vil ég sjálfur fara þangað með þér, af því að þú ert harðsvíraður lýður, að eigi tortími ég þér á leiðinni."

En er fólkið heyrði þennan ófögnuð, urðu þeir hryggir, og enginn maður bjó sig í skart.

Þá sagði Drottinn við Móse: "Seg Ísraelsmönnum: ,Þér eruð harðsvíraður lýður. Væri ég eitt augnablik með þér á leiðinni, mundi ég tortíma þér. Legg nú af þér skart þitt, svo að ég viti, hvað ég á að gjöra við þig."`

Þá lögðu Ísraelsmenn niður skart sitt undir Hórebfjalli og báru það eigi upp frá því.

Bréf Páls til Rómverja 4:1-12

Hvað eigum vér þá að segja um Abraham, forföður vorn, hvað ávann hann?

Ef hann réttlættist af verkum, þá hefur hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði.

Því hvað segir ritningin: "Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis."

Þeim sem vinnur verða launin ekki reiknuð af náð, heldur eftir verðleika.

Hinum aftur á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann sem réttlætir óguðlegan, er trú hans reiknuð til réttlætis.

Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan, sem Guð tilreiknar réttlæti án tillits til verka:

Sælir eru þeir, sem afbrotin eru fyrirgefin og syndir þeirra huldar.

Sæll er sá maður, sem Drottinn tilreiknar ekki synd.

Nær þá sæluboðun þessi aðeins til umskorinna manna? Eða líka til óumskorinna? Vér segjum: "Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð."

10 Hvernig var hún þá tilreiknuð honum? Umskornum eða óumskornum? Hann var ekki umskorinn, heldur óumskorinn.

11 Og hann fékk tákn umskurnarinnar sem staðfestingu þess réttlætis af trú, sem hann átti óumskorinn. Þannig skyldi hann vera faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir, til þess að réttlætið tilreiknist þeim,

12 og eins faðir þeirra umskornu manna, sem eru ekki aðeins umskornir heldur feta veg þeirrar trúar, er faðir vor Abraham hafði óumskorinn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society