Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 15:1-12

15 Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: "Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða."

Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns."

Og Abram mælti: "Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig."

Og sjá, orð Drottins kom til hans: "Ekki skal hann erfa þig, heldur sá, sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig."

Og hann leiddi hann út og mælti: "Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær." Og hann sagði við hann: "Svo margir skulu niðjar þínir verða."

Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis.

Þá sagði hann við hann: "Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar."

Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað skal ég hafa til marks um, að ég muni eignast það?"

Og hann mælti við hann: "Fær mér þrevetra kvígu, þrevetra geit, þrevetran hrút, turtildúfu og unga dúfu."

10 Og hann færði honum öll þessi dýr og hlutaði þau sundur í miðju og lagði hvern hlutinn gegnt öðrum. En fuglana hlutaði hann ekki sundur.

11 Og hræfuglar flugu að ætinu, en Abram fældi þá burt.

12 Er sól var að renna, leið þungur svefnhöfgi á Abram, og sjá: felmti og miklu myrkri sló yfir hann.

Fyrsta bók Móse 15:17-18

17 En er sól var runnin og myrkt var orðið, kom reykur sem úr ofni og eldslogi, er leið fram á milli þessara fórnarstykkja.

18 Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: "Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat:

Sálmarnir 27

27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?

Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.

Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.

Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.

Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.

Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!

Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.

Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.

10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.

12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.

13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!

14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.

Bréf Páls til Filippímann 3:17-4:1

17 Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið.

18 Margir breyta, _ ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi _, eins og óvinir kross Krists.

19 Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum.

20 En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists.

21 Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.

Þess vegna, mínir elskuðu og þráðu bræður, gleði mín og kóróna, standið þá stöðugir í Drottni, þér elskuðu.

Lúkasarguðspjall 13:31-35

31 Á þeirri stundu komu nokkrir farísear og sögðu við hann: "Far þú og hald á brott héðan, því að Heródes vill drepa þig."

32 Og hann sagði við þá: "Farið og segið ref þeim: ,Í dag og á morgun rek ég út illa anda og lækna og á þriðja degi mun ég marki ná.`

33 En mér ber að halda áfram ferð minni í dag og á morgun og næsta dag, því að eigi hæfir, að spámaður bíði dauða annars staðar en í Jerúsalem.

34 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú, sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hænan ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

35 Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Þér munuð eigi sjá mig, fyrr en þar er komið, að þér segið: ,Blessaður sé sá er kemur, í nafni Drottins!"`

Lúkasarguðspjall 9:28-36

28 Svo bar við um átta dögum eftir ræðu þessa, að hann tók með sér þá Pétur, Jóhannes og Jakob og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir.

29 Og er hann var að biðjast fyrir, varð yfirlit ásjónu hans annað, og klæði hans urðu hvít og skínandi.

30 Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía.

31 Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans, er hann skyldi fullna í Jerúsalem.

32 Þá Pétur og félaga hans sótti mjög svefn, en nú vöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo, er stóðu hjá honum.

33 Þegar þeir voru að skilja við Jesú, mælti Pétur við hann: "Meistari, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Ekki vissi hann, hvað hann sagði.

34 Um leið og hann mælti þetta, kom ský og skyggði yfir þá, og urðu þeir hræddir, er þeir komu inn í skýið.

35 Og rödd kom úr skýinu og sagði: "Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!"

36 Er röddin hafði talað, var Jesús einn. Og þeir þögðu og sögðu á þeim dögum engum frá neinu því, sem þeir höfðu séð.

Lúkasarguðspjall 9:37-43

37 Daginn eftir, er þeir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti honum.

38 Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: "Meistari, ég bið þig að líta á son minn, því að hann er einkabarnið mitt.

39 Það er andi, sem grípur hann, og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir, og víkur varla frá honum og er að gjöra út af við hann.

40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."

41 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður? Fær þú hingað son þinn."

42 Þegar hann var að koma, slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans.

43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs. Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína:

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society