Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 17

17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.

Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.

Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.

Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.

Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.

Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.

Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.

Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna

fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.

10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.

11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.

12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.

13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.

14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.

15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.

Sakaría 3

Því næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest, þar sem hann stóð frammi fyrir engli Drottins og Satan honum til hægri handar til þess að ákæra hann.

En Drottinn mælti til Satans: "Drottinn ávíti þig, Satan! Drottinn, sem útvalið hefir Jerúsalem, ávíti þig! Er ekki þessi eins og brandur úr báli dreginn?"

Jósúa var í óhreinum klæðum, þar er hann stóð frammi fyrir englinum.

Þá tók engillinn til máls og mælti til þeirra, er stóðu frammi fyrir honum: "Færið hann úr hinum óhreinu klæðum!" Síðan sagði hann við hann: "Sjá, ég hefi burt numið misgjörð þína frá þér og læt nú færa þig í skrúðklæði."

Enn fremur sagði hann: "Látið hreinan ennidúk um höfuð hans!" Þá létu þeir hreinan ennidúk um höfuð hans og færðu hann í klæðin, en engill Drottins stóð hjá.

Og engill Drottins vitnaði fyrir Jósúa og sagði:

"Svo segir Drottinn allsherjar: Ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín, þá skalt þú og stjórna húsi mínu og gæta forgarða minna, og ég heimila þér að ganga meðal þessara þjóna minna."

Heyr, Jósúa æðsti prestur, þú og félagar þínir, sem sitja frammi fyrir þér, eru fyrirboðar þess, að ég læt þjón minn Kvist koma.

Því sjá, steinninn, sem ég hefi lagt frammi fyrir Jósúa _ sjö augu á einum steini _ sjá, ég gref á hann letur hans _ segir Drottinn allsherjar _ og tek burt á einum degi misgjörð þessa lands.

10 Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ munuð þér bjóða hver öðrum inn undir víntré og fíkjutré.

Síðara almenna bréf Péturs 2:4-21

Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins.

Ekki þyrmdi hann hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.

Hann brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og dæmdi þær til eyðingar og setti þær til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega.

En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu.

Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.

Þannig veit Drottinn, hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags,

10 einkum þá, sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald. Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar skirrast ekki við að lastmæla tignum.

11 Jafnvel englarnir, sem eru þeim meiri að mætti og valdi, fara ekki með guðlast, þegar þeir ákæra þá hjá Drottni.

12 Þessir menn eru eins og skynlausar skepnur, sem eru fæddar til að veiðast og tortímast. Þeir lastmæla því, sem þeir þekkja ekki, og munu þess vegna í spillingu sinni undir lok líða

13 og bera þannig úr býtum laun ranglætis. Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag. Þeir eru skömm og smán, þegar þeir neyta máltíða með yður og svalla.

14 Augu þeirra eru full hórdóms, og þeim verður ekki frá syndinni haldið. Þeir fleka óstyrkar sálir, hjarta þeirra hefur tamið sér ágirnd. Það er bölvun yfir þeim.

15 Þeir hafa farið af rétta veginum og lent í villu. Þeir fara sömu leið og Bíleam, sonur Bósors, sem elskaði ranglætislaun.

16 En hann fékk ádrepu fyrir glæp sinn. Mállaus eykurinn talaði mannamál og aftraði fásinnu spámannsins.

17 Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur.

18 Þeir láta klingja drembileg hégómaorð og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá, sem fyrir skömmu hafa sloppið frá þeim, sem ganga í villu.

19 Þeir heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar, því að sérhver verður þræll þess, sem hann hefur beðið ósigur fyrir.

20 Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra.

21 Því að betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society