Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
21 Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael.
2 Þá mælti Davíð við Jóab og höfðingja lýðsins: "Farið og teljið Ísrael frá Beerseba til Dan og látið mig vita það, svo að ég fái að vita tölu á þeim."
3 Jóab svaraði: "Drottinn margfaldi lýðinn _ hversu margir sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum. Þeir eru þó, minn herra konungur, allir þjónar herra míns. Hví æskir herra minn þessa? Hvers vegna á það að verða Ísrael til áfellis?"
4 En Jóab mátti eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Lagði Jóab þá af stað og fór um allan Ísrael og kom síðan aftur til Jerúsalem.
5 Og Jóab sagði Davíð töluna, er komið hafði út við manntalið: Í öllum Ísrael voru ein milljón og hundrað þúsundir vopnaðra manna, og í Júda fjögur hundruð og sjötíu þúsundir vopnaðra manna.
6 En Leví og Benjamín taldi hann eigi, því að Jóab hraus hugur við skipun konungs.
7 En þetta verk var illt í augum Guðs, og laust hann Ísrael.
8 Þá sagði Davíð við Guð: "Mjög hefi ég syndgað, er ég framdi þetta verk, en nú, tak þú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."
9 En Drottinn talaði til Gaðs, sjáanda Davíðs, á þessa leið:
10 "Far þú og mæl svo við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."
11 Þá gekk Gað til Davíðs og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Kjós þér,
12 annaðhvort að hungur verði í þrjú ár, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverð fjandmanna þinna nái þér, eða að sverð Drottins og drepsótt geisi í landinu í þrjá daga og engill Drottins valdi eyðingu í öllu Ísraelslandi. Hygg nú að, hverju ég eigi að svara þeim, er sendi mig."
13 Davíð svaraði Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Falli ég þá í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."
14 Drottinn lét þá drepsótt koma í Ísrael, og féllu sjötíu þúsundir manns af Ísrael.
15 Og Guð sendi engil til Jerúsalem til þess að eyða hana, og er hann var að eyða hana, leit Drottinn til og hann iðraði hins illa, og sagði við engilinn, er eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Ornans Jebúsíta.
16 Og Davíð hóf upp augu sín og sá engil Drottins standa milli himins og jarðar með brugðið sverð í hendi, er hann beindi gegn Jerúsalem. Þá féll Davíð og öldungarnir fram á andlit sér, klæddir hærusekkjum.
17 Og Davíð sagði við Guð: "Var það eigi ég, er bauð að telja fólkið? Það er ég, sem hefi syndgað og breytt mjög illa, en þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Drottinn, Guð minn, lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína, en eigi á lýð þinn til þess að valda mannhruni."
2 Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.
2 Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.
3 Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.
4 Sá sem segir: "Ég þekki hann," og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.
5 En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.
6 Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti.
by Icelandic Bible Society