Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
6 Vita skaltu því, að það er ekki vegna réttlætis þíns, að Drottinn, Guð þinn, gefur þér þetta góða land til eignar, því að þú ert harðsvíraður lýður.
7 Minnstu þess og gleym því eigi, hvernig þú reittir Drottin Guð þinn til reiði í eyðimörkinni. Frá því þú fyrst lagðir af stað úr Egyptalandi og þar til, er þér komuð hingað, hafið þér óhlýðnast Drottni.
8 Hjá Hóreb reittuð þér Drottin til reiði, og Drottinn reiddist yður svo, að hann ætlaði að tortíma yður.
9 Ég var þá farinn upp á fjallið til þess að taka á móti steintöflunum, töflunum, sem sáttmálinn var á, er Drottinn hafði gjört við yður, og ég dvaldi á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur, án þess að neyta matar eða drekka vatn.
10 Drottinn fékk mér tvær steintöflur, ritaðar með fingri Guðs, og á þeim voru öll þau orð, er Drottinn hafði talað til yðar á fjallinu út úr eldinum, daginn sem þér voruð þar saman komnir.
11 Og er fjörutíu dagar og fjörutíu nætur voru liðnar, fékk Drottinn mér báðar steintöflurnar, sáttmálstöflurnar.
12 Drottinn sagði við mig: "Statt þú upp, far þú skjótt niður héðan, því að fólk þitt, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, hefir misgjört. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim; þeir hafa gjört sér steypt líkneski."
13 Og hann sagði við mig: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk.
14 Lát mig í friði, svo að ég geti gjöreytt þeim og afmáð nöfn þeirra undir himninum, og ég mun gjöra þig að sterkari og fjölmennari þjóð en þessi er."
10 Maður nokkur var í Sesareu, Kornelíus að nafni, hundraðshöfðingi í ítölsku hersveitinni.
2 Hann var trúmaður og dýrkaði Guð og heimafólk hans allt. Gaf hann lýðnum miklar ölmusur og var jafnan á bæn til Guðs.
3 Dag einn um nón sá hann berlega í sýn engil Guðs koma inn til sín, er sagði við hann: "Kornelíus!"
4 Hann starði á hann, varð óttasleginn og sagði: "Hvað er það, herra?" Engillinn svaraði: "Bænir þínar og ölmusur eru stignar upp til Guðs, og hann minnist þeirra.
5 Send þú nú menn til Joppe og lát sækja Símon nokkurn, er kallast Pétur.
6 Hann gistir hjá Símoni nokkrum sútara, sem á hús við sjóinn."
7 Þegar engillinn, sem talaði við hann, var farinn, kallaði hann á tvo heimamenn sína og guðrækinn hermann, einn þeirra, er honum voru handgengnir,
8 sagði þeim frá öllu og sendi þá til Joppe.
by Icelandic Bible Society