Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 45:3-11

Jósef mælti við bræður sína: "Ég er Jósef. Er faðir minn enn á lífi?" En bræður hans gátu ekki svarað honum, svo hræddir urðu þeir við hann.

Og Jósef sagði við bræður sína: "Komið hingað til mín!" Og þeir gengu til hans. Hann mælti þá: "Ég er Jósef bróðir yðar, sem þér selduð til Egyptalands.

En látið það nú ekki fá yður hryggðar, og setjið það ekki fyrir yður, að þér hafið selt mig hingað, því að til lífs viðurhalds hefir Guð sent mig hingað á undan yður.

Því að nú hefir hallærið verið í landinu í tvö ár, og enn munu líða svo fimm ár, að hvorki verði plægt né uppskorið.

En Guð hefir sent mig hingað á undan yður til þess að halda við kyni yðar á jörðinni og sjá lífi yðar borgið, til mikils hjálpræðis.

Það er því ekki þér, sem hafið sent mig hingað, heldur Guð. Og hann hefir látið mig verða Faraó sem föður og herra alls húss hans og höfðingja yfir öllu Egyptalandi.

Hraðið yður nú og farið heim til föður míns og segið við hann: ,Svo segir Jósef sonur þinn: Guð hefir gjört mig að herra alls Egyptalands; kom þú til mín og tef eigi.

10 Og þú skalt búa í Gósenlandi og vera í nánd við mig, þú og synir þínir og sonasynir þínir og sauðfé þitt og nautgripir þínir og allt, sem þitt er.

11 En ég skal sjá þér þar fyrir viðurværi, _ því að enn verður hallæri í fimm ár _, svo að þú komist ekki í örbirgð, þú og þitt hús og allt, sem þitt er.`

Fyrsta bók Móse 45:15

15 Og hann minntist við alla bræður sína, faðmaði þá og grét. Eftir það töluðu bræður hans við hann.

Sálmarnir 37:1-11

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

Sálmarnir 37:39-40

39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.

40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.

Fyrra bréf Páls til Korin 15:35-38

35 En nú kynni einhver að segja: "Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?"

36 Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi.

37 Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ.

38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama.

Fyrra bréf Páls til Korin 15:42-50

42 Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt.

43 Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika.

44 Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.

45 Þannig er og ritað: "Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál," hinn síðari Adam að lífgandi anda.

46 En hið andlega kemur ekki fyrst, heldur hið jarðneska, því næst hið andlega.

47 Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni.

48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku.

49 Og eins og vér höfum borið mynd hins jarðneska, munum vér einnig bera mynd hins himneska.

50 En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann.

Lúkasarguðspjall 6:27-38

27 En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður,

28 blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður.

29 Slái þig einhver á kinnina, skaltu og bjóða hina, og taki einhver yfirhöfn þína, skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.

30 Gef þú hverjum sem biður þig, og þann, sem tekur þitt frá þér, skaltu eigi krefja.

31 Og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.

32 Og þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka, sem þá elska.

33 Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama.

34 Og þótt þér lánið þeim, sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur.

35 Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda.

36 Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.

37 Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.

38 Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society