Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 37:1-11

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

Sálmarnir 37:39-40

39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.

40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.

Fyrsta bók Móse 44:1-17

44 Jósef bauð ráðsmanni sínum og mælti: "Fyll þú sekki mannanna vistum, svo mikið sem þeir geta með sér flutt, og láttu silfurpeninga hvers eins ofan á í sekk hans.

Og bikar minn, silfurbikarinn, skalt þú láta ofan á í sekk hins yngsta og silfurpeningana fyrir korn hans." Og hann gjörði eins og Jósef bauð honum.

Er bjart var orðið næsta morgun, voru mennirnir látnir fara, þeir og asnar þeirra.

Og er þeir voru komnir út úr borginni, en skammt burt farnir, sagði Jósef við ráðsmann sinn: "Bregð þú við og veit mönnunum eftirför, og þegar þú nær þeim, skalt þú segja við þá: ,Hví hafið þér launað gott með illu? Hví hafið þér stolið silfurbikar mínum?

Er það ekki sá, sem herra minn drekkur af og hann spáir í? Þar hafið þér illa gjört."`

Og er hann náði þeim, talaði hann þessi orð til þeirra.

En þeir sögðu við hann: "Hví talar herra minn þannig? Fjarri sé það þjónum þínum að gjöra slíkt.

Sjá, það silfur, sem vér fundum ofan á í sekkjum vorum, færðum vér þér aftur frá Kanaanlandi, og hvernig skyldum vér þá stela silfri eða gulli úr húsi herra þíns?

Hver sá af þjónum þínum, sem bikarinn finnst hjá, skal deyja, og þar að auki skulum vér hinir vera þrælar herra míns."

10 Hann svaraði: "Sé þá svo sem þér segið. Sá sem hann finnst hjá, veri þræll minn, en þér skuluð vera lausir."

11 Þá flýttu þeir sér að taka ofan hver sinn sekk, og þeir opnuðu hver sinn sekk.

12 Og hann leitaði, byrjaði á hinum elsta og endaði á hinum yngsta, og fannst þá bikarinn í sekk Benjamíns.

13 Þá rifu þeir klæði sín, létu hver upp á sinn asna og fóru aftur til borgarinnar.

14 Júda og bræður hans gengu inn í hús Jósefs, en hann var þar enn þá, og þeir féllu fram fyrir honum til jarðar.

15 Þá sagði Jósef við þá: "Hvílík óhæfa er þetta, sem þér hafið framið? Vissuð þér ekki, að annar eins maður og ég kann að spá?"

16 Og Júda mælti: "Hvað skulum vér segja við herra minn, hvað skulum vér tala og hvernig skulum vér réttlæta oss? Guð hefir fundið misgjörð þjóna þinna. Sjá, vér erum þrælar herra míns, bæði vér og sá, sem bikarinn fannst hjá."

17 Og hann svaraði: "Fjarri sé mér að gjöra slíkt. Sá maður, sem bikarinn fannst hjá, hann sé þræll minn, en farið þér í friði til föður yðar."

Fyrsta bréf Jóhannesar 2:12-17

12 Ég rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans.

13 Ég rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda.

14 Ég hef ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. Ég hef ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég hef ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.

15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.

16 Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.

17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society