Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 37:1-11

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

Sálmarnir 37:39-40

39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.

40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.

Fyrsta bók Móse 43:16-34

16 Er Jósef sá Benjamín með þeim, sagði hann við ráðsmann sinn: "Far þú með þessa menn inn í húsið og slátra þú og matreið, því að þessir menn skulu eta með mér miðdegisverð í dag."

17 Og maðurinn gjörði sem Jósef bauð og fór með mennina inn í hús Jósefs.

18 Mennirnir urðu hræddir, af því að þeir voru leiddir inn í hús Jósefs, og sögðu: "Sakir silfurpeninganna, sem aftur komu í sekki vora hið fyrra sinnið, erum vér hingað leiddir, svo að hann geti ráðist að oss og vaðið upp á oss og gjört oss að þrælum og tekið asna vora."

19 Þá gengu þeir til ráðsmanns Jósefs og töluðu við hann úti fyrir dyrum hússins

20 og sögðu: "Æ, herra minn, vér komum hingað í fyrra skiptið að kaupa vistir.

21 En svo bar til, er vér komum í áfangastað og opnuðum sekki vora, sjá, þá voru silfurpeningar hvers eins ofan á í sekk hans, silfurpeningar vorir með fullri vigt, og vér erum nú komnir með þá aftur.

22 Og annað silfur höfum vér með oss til að kaupa vistir. Eigi vitum vér, hver látið hefir peningana í sekki vora."

23 Hann svaraði: "Verið ókvíðnir, óttist ekki! Yðar Guð og Guð föður yðar hefir gefið yður fjársjóð í sekki yðar. Silfur yðar er komið til mín." Síðan leiddi hann Símeon út til þeirra.

24 Maðurinn fór með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn, að þeir mættu þvo fætur sína, og ösnum þeirra gaf hann fóður.

25 Og tóku þeir nú gjöfina fram, að hún væri til taks, er Jósef kæmi um miðdegið, því að þeir höfðu heyrt, að þeir ættu að matast þar.

26 Er Jósef kom heim, færðu þeir honum gjöfina, sem þeir höfðu meðferðis, inn í húsið og hneigðu sig til jarðar fyrir honum.

27 En hann spurði, hvernig þeim liði, og mælti: "Líður yðar aldraða föður vel, sem þér gátuð um? Er hann enn á lífi?"

28 Þeir svöruðu: "Þjóni þínum, föður vorum, líður vel. Hann er enn á lífi." Og þeir hneigðu sig og lutu honum.

29 Jósef hóf upp augu sín og sá Benjamín bróður sinn, son móður sinnar, og mælti: "Er þetta yngsti bróðir yðar, sem þér gátuð um við mig?" Og hann sagði: "Guð sé þér náðugur, son minn!"

30 Og Jósef hraðaði sér burt, því að hjarta hans brann af ást til bróður hans, og hann vék burt til þess að gráta og fór inn í innra herbergið og grét þar.

31 Síðan þvoði hann andlit sitt og gekk út, og hann lét ekki á sér sjá og mælti: "Berið á borð!"

32 Og menn báru á borð fyrir hann sér í lagi og fyrir þá sér í lagi og sér í lagi fyrir þá Egypta, sem með honum mötuðust, því að ekki mega Egyptar eta með Hebreum, fyrir því að Egyptar hafa andstyggð á því.

33 Og þeim var skipað til sætis gegnt honum, hinum frumgetna eftir frumburðarrétti hans og hinum yngsta eftir æsku hans, og mennirnir litu með undrun hver á annan.

34 Og hann lét bera skammta frá sér til þeirra, en skammtur Benjamíns var fimm sinnum stærri en skammtur nokkurs hinna. Og þeir drukku með honum og urðu hreifir.

Bréf Páls til Rómverja 8:1-11

Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú.

Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.

Það sem lögmálinu var ógerlegt, að því leyti sem það mátti sín einskis fyrir holdinu, það gjörði Guð. Með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni, dæmdi Guð syndina í manninum.

Þannig varð réttlætiskröfu lögmálsins fullnægt hjá oss, sem lifum ekki eftir holdi, heldur eftir anda.

Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.

Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.

Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki.

Þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði.

En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans.

10 Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna réttlætisins.

11 Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society