Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 1

Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,

heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.

Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.

Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.

Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.

Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Jeremía 13:20-27

20 Hef upp augu þín og sjá, þeir koma að norðan! Hvar er hjörðin, sem þér var fengin, þínir ágætu sauðir?

21 Hvað munt þú segja, þegar þeir setja þá menn höfðingja yfir þig, sem þú hefir sjálf kennt að vera á móti þér? Munu ekki hviður að þér koma, eins og að jóðsjúkri konu,

22 er þú segir í hjarta þínu: ,Hví ber mér slíkt að höndum?` Sakir þinnar miklu misgjörðar er klæðafaldi þínum upp flett, hælar þínir með valdi berir gjörðir.

23 Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt.

24 Ég vil tvístra þeim eins og hálmleggjum, sem berast fyrir eyðimerkurvindi.

25 Þetta er hlutur þinn, afmældur skammtur þinn frá minni hendi _ segir Drottinn _ af því að þú hefir gleymt mér og treystir á lygi.

26 Fyrir því kippi ég og klæðafaldi þínum upp að framan, svo að blygðan þín verði ber.

27 Hórdóm þinn og losta-hví, hið svívirðilega fúllífi þitt _ á fórnarhæðunum úti á víðavangi hefi ég séð viðurstyggðir þínar. Vei þér, Jerúsalem, þú munt ekki hrein verða _ hve langt mun enn þangað til?

Fyrra almenna bréf Péturs 1:17-2:1

17 Fyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar.

18 Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar,

19 heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.

20 Hann var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar.

21 Fyrir hann trúið þér á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs.

22 Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið því hver annan af heilu hjarta.

23 Þér eruð endurfæddir, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs, sem lifir og varir.

24 Því að: Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur.

25 En orð Drottins varir að eilífu. Og þetta orð er fagnaðarerindið, sem yður hefur verið boðað.

Leggið því af alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society