Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
6 Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn.
2 Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.
3 Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: "Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð."
4 Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.
5 Þá sagði ég: "Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar."
6 Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng,
7 og hann snart munn minn með kolinu og sagði: "Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína."
8 Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: "Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?" Og ég sagði: "Hér er ég, send þú mig!"
9 Og hann sagði: "Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða!
10 Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast."
11 Og ég sagði: "Hversu lengi, Drottinn?" Hann svaraði: "Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt."
12 Drottinn mun reka fólkið langt í burt og eyðistaðirnir verða margir í landinu.
13 Og þótt enn sé tíundi hluti eftir í því, skal hann og verða eyddur. En eins og rótarstúfur verður eftir af terpentíntrénu og eikinni, þá er þau eru felld, svo skal og stúfur þess verða heilagt sæði.
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
15 Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.
2 Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.
3 Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,
4 að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum
5 og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.
6 Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.
7 Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
8 En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.
9 Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli, með því að ég ofsótti söfnuð Guðs.
10 En af Guðs náð er ég það sem ég er, og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis, heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég, heldur náð Guðs, sem með mér er.
11 Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum vér þannig, og þannig hafið þér trúna tekið.
5 Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.
2 Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín.
3 Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.
4 Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: "Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar."
5 Símon svaraði: "Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin."
6 Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.
7 Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.
8 Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: "Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður."
9 En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið.
10 Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: "Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða."
11 Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.
by Icelandic Bible Society