Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
22 Nú lögðu þeir upp frá Kades, og Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu til fjallsins Hór.
23 Og Drottinn talaði við Móse og Aron á Hórfjalli, við landamæri Edómlands, og sagði:
24 "Aron skal safnast til fólks síns, því að eigi skal hann komast í það land, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum, af því að þið þrjóskuðust gegn skipan minni hjá Meríbavötnum.
25 Tak þú Aron og Eleasar son hans og leið þá upp á Hórfjall.
26 Fær þú Aron úr klæðum sínum og skrýð Eleasar son hans þeim, en Aron skal safnast til fólks síns og deyja þar."
27 Móse gjörði svo sem Drottinn bauð honum, og þeir gengu upp á Hórfjall í augsýn alls fólksins.
28 Og Móse færði Aron úr klæðum hans og skrýddi Eleasar son hans þeim. Og Aron dó þar á háfjallinu. Gengu þeir Móse og Eleasar þá niður af fjallinu.
29 En er allt fólkið sá, að Aron var andaður, grétu allir Ísraelsmenn Aron þrjátíu daga.
19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus
20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.
21 Allir þeir, sem heyrðu það, undruðust stórum og sögðu: "Er þetta ekki maðurinn, sem í Jerúsalem hugðist eyða þeim, er ákölluðu þetta nafn? Kom hann ekki hingað til að fara með þá í böndum til æðstu prestanna?"
22 En Sál efldist æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.
23 Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi.
24 En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans.
25 En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu.
by Icelandic Bible Society