Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 56

56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.

Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.

Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.

Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.

Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?

Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.

Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.

Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.

Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.

10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.

11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.

12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,

14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.

Síðari bók konunganna 5:1-14

Naaman, hershöfðingi Sýrlandskonungs, var í miklum metum hjá herra sínum og í hávegum hafður, því að undir forustu hans hafði Drottinn veitt Sýrlendingum sigur. Var maðurinn hinn mesti kappi, en líkþrár.

Sýrlendingar höfðu farið herför í smáflokkum og haft burt af Ísraelslandi unga stúlku. Þjónaði hún konu Naamans.

Hún sagði við húsmóður sína: "Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána."

Þá fór Naaman og sagði herra sínum frá á þessa leið: "Svo og svo hefir stúlkan frá Ísraelslandi talað."

Þá mælti Sýrlandskonungur: "Far þú, ég skal senda Ísraelskonungi bréf." Lagði Naaman þá af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund sikla gulls og tíu alklæðnaði.

Hann færði Ísraelskonungi bréfið, er var á þessa leið: "Þegar bréf þetta kemur þér í hendur, þá skalt þú vita, að ég hefi sent til þín Naaman þjón minn, og skalt þú losa hann við líkþrá hans."

En er Ísraelskonungur hafði lesið bréfið, reif hann klæði sín og mælti: "Er ég þá Guð, er deytt geti og lífgað, fyrst hann gjörir mér orð um að losa mann við líkþrá hans? Megið þér þar sjá og skynja, að hann leitar saka við mig."

En er Elísa, guðsmaðurinn, frétti, að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín, sendi hann til konungs og lét segja honum: "Hví rífur þú klæði þín? Komi hann til mín, þá skal hann komast að raun um, að til er spámaður í Ísrael."

Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar úti fyrir húsdyrum Elísa.

10 Þá sendi Elísa mann til hans og lét segja honum: "Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!"

11 Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti: "Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt.

12 Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?" Sneri hann sér þá við og hélt burt í reiði.

13 Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu: "Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ,Lauga þig og munt þú hreinn verða`?"

14 Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn.

Fyrra bréf Páls til Korin 14:13-25

13 Biðji því sá, er talar tungum, um að geta útlagt.

14 Því að ef ég biðst fyrir með tungum, þá biður andi minn, en skilningur minn ber engan ávöxt.

15 Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda, en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda, en ég vil einnig lofsyngja með skilningi.

16 Því ef þú vegsamar með anda, hvernig á þá sá, er skipar sess hins fáfróða, að segja amen við þakkargjörð þinni, þar sem hann veit ekki, hvað þú ert að segja?

17 Að vísu getur þakkargjörð þín verið fögur, en hinn uppbyggist ekki.

18 Ég þakka Guði, að ég tala tungum öllum yður fremur,

19 en á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm orð með skilningi mínum, til þess að ég geti frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum.

20 Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.

21 Í lögmálinu er ritað: Með annarlegu tungutaki og annarlegum vörum mun ég tala til lýðs þessa, og eigi að heldur munu þeir heyra mig, segir Drottinn.

22 Þannig er þá tungutalið til tákns, ekki þeim sem trúa, heldur hinum vantrúuðu. En spámannlega gáfan er ekki til tákns fyrir hina vantrúuðu, heldur þá sem trúa.

23 Ef nú allur söfnuðurinn kæmi saman og allir töluðu tungum, og inn kæmu fáfróðir menn eða vantrúaðir, mundu þeir þá ekki segja: "Þér eruð óðir"?

24 En ef allir töluðu af spámannlegri gáfu, og inn kæmi einhver vantrúaður eða fáfróður þá sannfærðist hann og dæmdist af öllum.

25 Leyndardómar hjarta hans verða opinberir, og hann fellur fram á ásjónu sína og tilbiður Guð og lýsir því yfir, að Guð er sannarlega hjá yður.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society