Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 71:1-6

71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.

Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.

Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.

Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.

Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.

Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.

Síðari Kroníkubók 35:20-27

20 Eftir allt þetta, er Jósía hafði komið musterinu aftur í lag, fór Nekó Egyptalandskonungur herför til þess að heyja orustu hjá Karkemis við Efrat. Þá fór Jósía út í móti honum.

21 En hann gjörði menn á fund hans og lét segja honum: "Hvað þurfum við að eigast við, Júdakonungur? Nú kem ég eigi í móti þér, heldur í móti mínum forna fjanda, og Guð hefir boðið mér að flýta mér. Freista þú eigi fangs við guðinn, sem með mér er, svo að hann tortími þér ekki."

22 En Jósía vildi eigi hörfa undan honum, heldur klæddist dularbúningi til þess að berjast við hann, og hlýddi eigi á orð Nekós, er þó voru af Guðs munni, og fór til bardaga á Megiddóvöllum.

23 En bogmennirnir skutu á Jósía konung. Þá mælti konungur við þjóna sína: "Komið mér burt héðan, því að ég er sár mjög."

24 Tóku þá þjónar hans hann af vagninum og óku honum á næsta vagni hans, og er þeir komu með hann til Jerúsalem, þá dó hann og var grafinn í gröfum feðra sinna. Allir Júdamenn og Jerúsalembúar hörmuðu Jósía,

25 og Jeremía orti harmljóð eftir Jósía, og allir söngmenn og söngkonur hafa talað um Jósía í harmljóðum sínum fram á þennan dag. Og menn gjörðu þau að ákvæði fyrir Ísrael, og eru þau rituð í harmljóðunum.

26 Það sem meira er að segja um Jósía og góðverk hans, er voru samkvæm því, sem ritað er í lögmáli Drottins,

27 svo og saga hans frá upphafi til enda, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga.

Postulasagan 19:1-10

19 Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina.

Hann sagði við þá: "Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?" Þeir svöruðu: "Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til."

Hann sagði: "Upp á hvað eruð þér þá skírðir?" Þeir sögðu: "Skírn Jóhannesar."

Þá mælti Páll: "Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú."

Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.

Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu.

Þessir menn voru alls um tólf.

Páll sótti nú samkunduna í þrjá mánuði og talaði þar djarflega og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki.

En nokkrir brynjuðu sig og vildu ekki trúa. Þegar þeir tóku að illmæla veginum í áheyrn fólksins, sagði Páll skilið við þá, greindi lærisveinana frá þeim, og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar.

10 Þessu fór fram í tvö ár, svo að allir þeir, sem í Asíu bjuggu, heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society