Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
5 En það varð mikið kvein meðal lýðsins og meðal kvenna þeirra yfir bræðrum þeirra, Gyðingunum.
2 Sumir sögðu: "Sonu vora og dætur verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn, svo að vér megum eta og lífi halda."
3 Og aðrir sögðu: "Akra vora, víngarða og hús verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn í hallærinu!"
4 Og enn aðrir sögðu: "Vér höfum tekið fé að láni upp á akra vora og víngarða í konungsskattinn.
5 Og þótt hold vort sé eins og hold bræðra vorra, börn vor eins og börn þeirra, þá verðum vér nú að gjöra sonu vora og dætur að ánauðugum þrælum, og sumar af dætrum vorum eru þegar orðnar ánauðugar, og vér getum ekkert við því gjört, þar eð akrar vorir og víngarðar eru á annarra valdi."
6 Þá varð ég mjög reiður, er ég heyrði kvein þeirra og þessi ummæli.
7 Og ég hugleiddi þetta með sjálfum mér og taldi á tignarmennina og yfirmennina og sagði við þá: "Þér beitið okri hver við annan!" Og ég stefndi mikið þing í móti þeim
8 og sagði við þá: "Vér höfum keypt lausa bræður vora, Gyðingana, sem seldir voru heiðingjunum, svo oft sem oss var unnt, en þér ætlið jafnvel að selja bræður yðar, svo að þeir verði seldir oss." Þá þögðu þeir og gátu engu svarað.
9 Og ég sagði: "Það er ekki fallegt, sem þér eruð að gjöra. Ættuð þér ekki heldur að ganga í ótta Guðs vors vegna smánaryrða heiðingjanna, óvina vorra?
10 Bæði ég og bræður mínir og sveinar mínir höfum líka lánað þeim silfur og korn. Vér skulum því láta þessa skuldakröfu niður falla.
11 Gjörið það fyrir mig að skila þeim aftur þegar í dag ökrum þeirra og víngörðum þeirra og olífugörðum þeirra og húsum þeirra, og látið niður falla skuldakröfuna um silfrið og kornið, um vínberjalöginn og olíuna, er þér hafið lánað þeim."
12 Þá sögðu þeir: "Vér viljum skila því aftur og einskis krefjast af þeim. Vér viljum gjöra sem þú segir." Þá kallaði ég á prestana og lét þá vinna eið að því, að þeir skyldu fara eftir þessu.
13 Ég hristi og skikkjubarm minn og sagði: "Þannig hristi Guð sérhvern þann, er eigi heldur þetta loforð, burt úr húsi hans og frá eign hans, og þannig verði hann gjörhristur og tæmdur." Og allur þingheimur sagði: "Svo skal vera!" Og þeir vegsömuðu Drottin. Og lýðurinn breytti samkvæmt þessu.
39 Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret.
40 En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.
41 Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni.
42 Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni.
43 Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi.
44 Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja.
45 En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
46 Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.
47 En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.
48 Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: "Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin."
49 Og hann sagði við þau: "Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?"
50 En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
51 Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.
52 Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.
by Icelandic Bible Society