Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
2 Í nísanmánuði á tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs, þá er vín stóð fyrir framan konung, tók ég vínið og rétti að honum, án þess að láta á því bera við hann, hve illa lá á mér.
2 En konungur sagði við mig: "Hví ert þú svo dapur í bragði, þar sem þú ert þó ekki sjúkur? Það hlýtur að liggja illa á þér." Þá varð ég ákaflega hræddur.
3 Og ég sagði við konung: "Konungurinn lifi eilíflega! Hví skyldi ég ekki vera dapur í bragði, þar sem borgin, er geymir grafir forfeðra minna, er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd?"
4 Þá sagði konungur við mig: "Hvers beiðist þú þá?" Þá gjörði ég bæn mína til Guðs himnanna;
5 síðan mælti ég til konungs: "Ef konungi þóknast svo og ef þú telur þjón þinn til þess færan, þá send mig til Júda, til borgar þeirrar, er geymir grafir forfeðra minna, til þess að ég endurreisi hana."
6 Konungur mælti til mín _ en drottning sat við hlið honum: "Hversu lengi mun ferð þín standa yfir, og hvenær kemur þú aftur?" Og konungi þóknaðist að senda mig, og ég tiltók ákveðinn tíma við hann.
7 Og ég sagði við konung: "Ef konunginum þóknast svo, þá lát fá mér bréf til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, til þess að þeir leyfi mér að fara um lönd sín, þar til er ég kem til Júda,
8 og bréf til Asafs, skógarvarðar konungsins, til þess að hann láti mig fá við til þess að gjöra af bjálka í hlið kastalans, er heyrir til musterisins, og til borgarmúranna og til hússins, er ég mun fara í." Og konungur veitti mér það, með því að hönd Guðs míns hvíldi náðarsamlega yfir mér.
9 Og er ég kom til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, þá fékk ég þeim bréf konungs. Konungur sendi og með mér höfuðsmenn og riddara.
10 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, spurðu það, gramdist þeim það mikillega, að kominn skyldi vera maður til að annast hagsmuni Ísraelsmanna.
12 Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.
2 Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
3 Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.
4 Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa.
5 Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir.
6 Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna.
7 Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni,
8 sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði.
by Icelandic Bible Society