Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
4 Já, fögur ertu, vina mín, já, fögur ertu. Augu þín eru dúfuaugu fyrir innan skýluraufina. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall.
2 Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipptum ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra.
3 Varir þínar eru eins og skarlatsband og munnur þinn yndislegur. Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina.
4 Háls þinn er eins og Davíðsturn, reistur fyrir hernumin vopn. Þúsund skildir hanga á honum, allar törgur kappanna.
5 Brjóst þín eru eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar, sem eru á beit meðal liljanna.
6 Þar til kular af degi og skuggarnir flýja, vil ég ganga til myrruhólsins og til reykelsishæðarinnar.
7 Öll ertu fögur, vina mín, og á þér eru engin lýti.
8 Með mér frá Líbanon, brúður, með mér skaltu koma frá Líbanon! Lít niður frá Amanatindi, frá Senír- og Hermontindi, frá bælum ljónanna, frá fjöllum pardusdýranna.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
4 Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú.
5 Í honum eruð þér auðgaðir orðnir í öllu, í hvers konar ræðu og hvers konar þekkingu.
6 Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar,
7 svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists.
8 Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists.
9 Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors.
10 En ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.
11 Því að mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar.
12 Ég á við þetta, að sumir yðar segja: "Ég er Páls," og aðrir: "Ég er Apollóss," eða: "Ég er Kefasar," eða: "Ég er Krists."
13 Er þá Kristi skipt í sundur? Mun Páll hafa verið krossfestur fyrir yður? Eða eruð þér skírðir til nafns Páls?
14 Ég þakka Guði fyrir, að ég hef engan yðar skírt nema Krispus og Gajus,
15 til þess að enginn skuli segja, að þér séuð skírðir til nafns míns.
16 Jú, ég skírði líka Stefanas og heimamenn hans. Annars veit ég ekki til, að ég hafi skírt neinn annan.
17 Ekki sendi Kristur mig til að skíra, heldur til að boða fagnaðarerindið, _ og ekki með orðspeki, til þess að kross Krists missti ekki gildi sitt.
by Icelandic Bible Society