Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
7 Svo segir Drottinn: Fagnið yfir Jakob með gleði og kætist yfir öndvegisþjóð þjóðanna. Kunngjörið, vegsamið og segið: Frelsa, Drottinn, þjóð þína, leifarnar af Ísrael!
8 Sjá, ég flyt þá úr landinu norður frá og safna þeim saman frá útkjálkum jarðar, á meðal þeirra eru bæði blindir og lamir, bæði þungaðar og jóðsjúkar konur, í stórum hóp hverfa þeir hingað aftur.
9 Þeir munu koma grátandi, og ég mun fylgja þeim huggandi, leiða þá að vatnslækjum, um sléttan veg, þar sem þeir geta eigi hrasað, því að ég er orðinn Ísrael faðir, og Efraím er frumgetinn sonur minn.
10 Heyrið orð Drottins, þér þjóðir, og kunngjörið það á fjarlægu eyjunum og segið: Sá, sem tvístraði Ísrael, safnar honum saman og mun gæta hans, eins og hirðir gætir hjarðar sinnar.
11 Drottinn frelsar Jakob og leysir hann undan valdi þess, sem honum var yfirsterkari.
12 Þeir skulu koma og fagna á Síonhæð og streyma til gæða Drottins, til kornsins, vínberjalagarins, olíunnar og ungu sauðanna og nautanna, og sál þeirra skal verða eins og vökvaður aldingarður, og þeir skulu eigi framar vanmegnast.
13 Þá munu meyjarnar skemmta sér við dans og unglingar og gamalmenni gleðjast saman. Ég mun breyta sorg þeirra í gleði og hugga þá og gleðja eftir harma þeirra.
14 Og ég mun endurnæra sál prestanna á feiti, og lýður minn mun seðja sig á gæðum mínum _ segir Drottinn.
1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.
2 Hann var í upphafi hjá Guði.
3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.
4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.
5 Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.
6 Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.
7 Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.
8 Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.
10 Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.
11 Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.
12 En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
13 Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.
14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.
15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: "Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég."
16 Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.
17 Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.
18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
by Icelandic Bible Society