Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
10 Og Drottinn sneri við högum Jobs, þá er hann bað fyrir vinum sínum; og hann gaf Job allt sem hann hafði átt, tvöfalt aftur.
11 Þá komu til hans allir bræður hans og allar systur hans og allir þeir, er áður höfðu verið kunningjar hans, og neyttu máltíðar með honum í húsi hans, vottuðu honum samhryggð sína og hugguðu hann út af öllu því böli, sem Drottinn hafði látið yfir hann koma. Og þeir gáfu honum hver einn kesíta og hver einn hring af gulli.
12 En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, og hann eignaðist fjórtán þúsund sauða, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur.
13 Hann eignaðist og sjö sonu og þrjár dætur.
14 Og hann nefndi eina Jemímu, aðra Kesíu og hina þriðju Keren Happúk.
15 Og eigi fundust svo fríðar konur í öllu landinu sem dætur Jobs, og faðir þeirra gaf þeim arf með bræðrum þeirra.
16 Og Job lifði eftir þetta hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði.
16 Enginn kveikir ljós og byrgir það með keri eða setur undir bekk, heldur láta menn það á ljósastiku, að þeir, sem inn koma, sjái ljósið.
17 Því að ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, að eigi verði það kunnugt og komi í ljós.
18 Gætið því að, hvernig þér heyrið. Því að þeim sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann ætlar sig hafa."
19 Móðir hans og bræður komu til hans, en gátu ekki náð fundi hans vegna mannfjöldans.
20 Var honum sagt: "Móðir þín og bræður standa úti og vilja finna þig."
21 En hann svaraði þeim: "Móðir mín og bræður eru þeir, sem heyra Guðs orð og breyta eftir því."
by Icelandic Bible Society