Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
54 Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, _ segir Drottinn.
2 Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana.
3 Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir.
4 Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns.
5 Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann.
6 Drottinn kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, _ segir Guð þinn.
7 Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.
8 Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, _ segir endurlausnari þinn, Drottinn.
9 Það fer eins fyrir mér með þetta og með Nóaflóð: Svo sem ég sór þá, að Nóaflóð skyldi ekki framar ganga yfir jörðina, eins sver ég nú að reiðast þér ekki né ávíta þig.
10 Því þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði skal mín miskunnsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast, _ segir miskunnari þinn, Drottinn.
11 Þú hin vesala, hrakta, huggunarlausa! Sjá, ég legg rúbína sem steina í bygging þína og hleð grunnmúra þína af safírsteinum.
12 Ég gjöri múrtinda þína af jaspis og hlið þín af roðasteinum og allan ummerkjagarð þinn af dýrindissteinum.
13 Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.
21 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.
2 Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.
3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.
4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið."
5 Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu."
6 Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.
7 Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur.
by Icelandic Bible Society