Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,
47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.
50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.
51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,
53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.
54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.
4 Og það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma.
2 Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: "Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum." Því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.
3 Og hann mun dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.
4 Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur Drottins allsherjar hefir talað það.
5 Því að allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.
11 Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna.
12 Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum.
13 Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.
14 Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum
15 afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum.
16 Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð á krossinum, þar sem hann deyddi fjandskapinn.
17 Og hann kom og boðaði frið yður, sem fjarlægir voruð, og frið hinum, sem nálægir voru.
18 Því að fyrir hann eigum vér hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda.
19 Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.
20 Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.
21 Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni.
22 Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.
by Icelandic Bible Society