Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
11 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.
2 Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.
3 Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.
4 Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.
5 Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.
6 Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.
7 Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut.
8 Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.
9 Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.
16 Kóra, sonur Jísehars, Kahats sonar, Leví sonar, gjörði uppreisn, ásamt þeim Datan og Abíram, sonum Elíabs, Pallú sonar, Rúbens sonar.
2 Þeir risu upp í móti Móse og með þeim tvö hundruð og fimmtíu manns af Ísraelsmönnum. Voru það höfuðsmenn safnaðarins og fulltrúar, nafnkunnir menn.
3 Þeir söfnuðust saman í gegn þeim Móse og Aroni og sögðu við þá: "Nú er nóg komið! Allur söfnuðurinn er heilagur, og Drottinn er meðal þeirra. Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð Drottins?"
4 Er Móse heyrði þetta, féll hann fram á ásjónu sína.
5 Því næst mælti hann við Kóra og allan flokk hans og sagði: "Á morgun mun Drottinn kunnugt gjöra, hver hans er og hver heilagur er og hvern hann lætur nálgast sig. Og þann sem hann kýs sér, mun hann láta nálgast sig.
6 Gjörið þetta: Takið yður eldpönnur, Kóra og allur flokkur hans,
7 látið eld í þær og leggið á reykelsi fyrir augliti Drottins á morgun. Og sá, sem Drottinn kýs sér, hann skal vera heilagur. Nú er nóg komið, Leví synir!"
8 Móse sagði við Kóra: "Heyrið, Leví synir!
9 Sýnist yður það lítils vert, að Ísraels Guð greindi yður frá söfnuði Ísraels til þess að láta yður nálgast sig, til þess að þér skylduð gegna þjónustu við búð Drottins og standa frammi fyrir söfnuðinum til að þjóna honum?
10 Og hann lét þig nálgast sig og alla bræður þína, Leví sonu, með þér, og nú viljið þér einnig ná í prestsembættið!
11 Fyrir því hefir þú og allur þinn flokkur gjört samblástur í gegn Drottni, því að hvað er Aron, að þér möglið í gegn honum?"
12 Og Móse lét kalla þá Datan og Abíram, Elíabs sonu, en þeir svöruðu: "Eigi munum vér koma.
13 Sýnist þér það lítils vert, að þú leiddir oss brott úr því landi, er flýtur í mjólk og hunangi, til þess að láta oss deyja í eyðimörkinni, úr því þú vilt einnig gjörast drottnari yfir oss?
14 Þú hefir og eigi leitt oss inn í land, er flýtur í mjólk og hunangi, né gefið oss akra og víngarða til eignar. Hvort ætlar þú, að þú megir stinga augun úr mönnum þessum? Eigi munum vér koma!"
15 Þá varð Móse afar reiður og sagði við Drottin: "Lít ekki við fórn þeirra! Eigi hefi ég tekið svo mikið sem asna frá þeim né gjört nokkrum þeirra mein."
16 Þá sagði Móse við Kóra: "Þú og allur flokkur þinn skuluð á morgun koma fram fyrir Drottin, þú og þeir og Aron.
17 Og takið hver sína eldpönnu og leggið á reykelsi og færið því næst hver sína eldpönnu fram fyrir Drottin _ tvö hundruð og fimmtíu eldpönnur. Þú og Aron skuluð og hafa hver sína eldpönnu."
18 Tóku þeir nú hver sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu á reykelsi. Og þeir námu staðar fyrir dyrum samfundatjaldsins, svo og þeir Móse og Aron.
19 Og Kóra safnaði í móti þeim öllum flokki sínum fyrir dyrum samfundatjaldsins. Þá birtist dýrð Drottins öllum söfnuðinum,
7 Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.
8 Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.
9 Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því.
10 Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því.
11 Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar.
12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu.
13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.
14 Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.
15 Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.
16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.
17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.
by Icelandic Bible Society