Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
3 Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér. Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið. Sjá, hann kemur _ segir Drottinn allsherjar.
2 En hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna.
3 Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að Drottinn hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er,
4 og þá munu fórnir Júdamanna og Jerúsalembúa geðjast Drottni eins og forðum daga og eins og á löngu liðnum árum.
68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,
70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.
72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,
73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum
74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust
75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.
78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.
3 Ég þakka Guði mínum í hvert skipti, sem ég hugsa til yðar,
4 og gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum,
5 vegna samfélags yðar um fagnaðarerindið frá hinum fyrsta degi til þessa.
6 Og ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.
7 Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til yðar allra. Ég hef yður í hjarta mínu, og þér eigið allir hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og þegar ég er að verja fagnaðarerindið og staðfesta það.
8 Guð er mér þess vitni, hvernig ég þrái yður alla með ástúð Krists Jesú.
9 Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind,
10 svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists,
11 auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði.
3 Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,
2 í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.
3 Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,
4 eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.
5 Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur.
6 Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.
by Icelandic Bible Society