Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,
70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.
72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,
73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum
74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust
75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.
78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.
5 En ég mun nálægja mig yður til að halda dóm og mun skyndilega fram ganga sem vitni í gegn töframönnum, hórdómsmönnum og meinsærismönnum og í gegn þeim, sem hafa af daglaunamönnum, ekkjum og munaðarleysingjum og halla rétti útlendinga, en óttast mig ekki _ segir Drottinn allsherjar.
6 Ég, Drottinn, hefi ekki breytt mér, og þér, Jakobssynir, eruð samir við yður.
7 Allt í frá dögum feðra yðar hafið þér vikið frá setningum mínum og ekki gætt þeirra. Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar _ segir Drottinn allsherjar. En þér spyrjið: "Að hverju leyti eigum vér að snúa oss?"
8 Á maðurinn að pretta Guð, úr því að þér prettið mig? Þér spyrjið: "Í hverju höfum vér prettað þig?" Í tíund og fórnargjöfum.
9 Mikil bölvun hvílir yfir yður, af því að þér prettið mig, öll þjóðin.
10 Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt _ segir Drottinn allsherjar _, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.
11 Og ég mun hasta á átvarginn fyrir yður, til þess að hann spilli ekki fyrir yður gróðri jarðarinnar og víntréð á akrinum verði yður ekki ávaxtarlaust _ segir Drottinn allsherjar.
12 Þá munu allar þjóðir telja yður sæla, því að þér munuð vera dýrindisland _ segir Drottinn allsherjar.
12 En ég vil, bræður, að þér vitið, að það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar.
13 Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists,
14 og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.
15 Sumir prédika að sönnu Krist af öfund og þrætugirni, en sumir gjöra það líka af góðum hug.
16 Þeir gjöra það af kærleika, vegna þess að þeir vita, að ég er settur fagnaðarerindinu til varnar.
17 Hinir prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug, heldur í þeim tilgangi að bæta þrengingu ofan á fjötra mína.
18 En hvað um það! Kristur er allt að einu boðaður, hvort sem það heldur er af uppgerð eða heilum hug. Og þetta gleður mig. Já, það mun áfram gleðja mig.
by Icelandic Bible Society