Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 90

90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"

Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.

Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.

Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.

Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.

Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.

10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.

11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?

12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.

13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?

14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.

15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.

16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.

17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.

Jesaja 1:24-31

24 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn allsherjar, hinn voldugi Ísraels Guð: Vei, ég skal ná rétti mínum gagnvart mótstöðumönnum mínum og hefna mín á óvinum mínum.

25 Og ég skal rétta út hönd mína til þín og hreinsa sorann úr þér, eins og með lútösku, og skilja frá allt blýið.

26 Ég skal fá þér aftur slíka dómendur sem í öndverðu og aðra eins ráðgjafa og í upphafi. Upp frá því skalt þú kallast bær réttvísinnar, borgin trúfasta.

27 Síon skal endurleyst fyrir réttan dóm, og þeir, sem taka sinnaskiptum, munu frelsaðir verða fyrir réttlæti.

28 En tortíming kemur yfir alla illræðismenn og syndara, og þeir, sem yfirgefa Drottin, skulu fyrirfarast.

29 Þér munuð blygðast yðar fyrir eikurnar, sem þér höfðuð mætur á, og þér munuð skammast yðar fyrir lundana, sem voru yndi yðar.

30 Því að þér munuð verða sem eik með visnuðu laufi og eins og vatnslaus lundur.

31 Og hinn voldugi skal verða að strýi og verk hans að eldsneista, og hvort tveggja mun uppbrenna hvað með öðru og enginn slökkva.

Lúkasarguðspjall 11:29-32

29 Þegar fólkið þyrptist þar að, tók hann svo til orða: "Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.

30 Því Jónas varð Ninívemönnum tákn, og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð.

31 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.

32 Ninívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society