Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
7 Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.
8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.
9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.
10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.
11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?
12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
17 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tala þú við Ísraelsmenn og fá hjá þeim tólf stafi, einn staf hjá ættkvísl hverri, hjá öllum höfuðsmönnum ættkvísla þeirra. Rita þú nafn hvers eins á staf hans.
3 En nafn Arons skalt þú rita á staf Leví, því að einn stafur skal vera fyrir höfuð ættkvíslar þeirra.
4 Og þú skalt leggja þá niður í samfundatjaldinu, fyrir framan sáttmálið, þar sem ég á samfundi við yður.
5 Og það skal verða, að stafur þess manns, sem ég kýs, skal laufgast, að ég megi hefta kurr Ísraelsmanna, er þeir mögla í gegn yður."
6 Móse talaði við Ísraelsmenn, og allir höfuðsmenn þeirra fengu honum stafi, hver höfðingi einn staf eftir ættkvíslum þeirra, tólf stafi alls, og var stafur Arons meðal stafa þeirra.
7 Og Móse lagði stafina fram fyrir Drottin í sáttmálstjaldinu.
8 Er Móse gekk inn í sáttmálstjaldið daginn eftir, sjá, þá var stafur Arons, stafur Levíættar, laufgaður. Voru blöð sprottin á honum, blóm sprungin út og bar hann fullvaxnar möndlur.
9 Bar Móse nú alla stafina út frá augliti Drottins til allra Ísraelsmanna, svo að þeir sæju þá, og tóku þeir hver sinn staf.
10 Þá sagði Drottinn við Móse: "Ber staf Arons inn aftur fram fyrir sáttmálið, að hann sé þar geymdur til tákns fyrir þá, sem óhlýðnir eru, og kurr þeirra gegn mér taki enda, ella munu þeir deyja."
11 Og Móse gjörði svo, hann gjörði svo sem Drottinn bauð honum.
3 Þetta er nú annað bréfið, sem ég skrifa yður, þér elskaðir, og í þeim báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður.
2 Það reyni ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.
3 Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum
4 og segja með spotti: "Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar."
5 Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs.
6 Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.
7 En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.
8 En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.
9 Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.
10 En dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.
11 Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni,
12 þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.
13 En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.
14 Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.
15 Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin.
16 Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar.
17 Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.
by Icelandic Bible Society