Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 63

63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.

Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.

Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,

því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.

Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.

Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,

þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.

Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.

Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.

10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.

11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.

12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.

Síðari bók konunganna 23:15-25

15 Sömuleiðis altarið í Betel, fórnarhæðina, sem Jeróbóam Nebatsson hafði gjöra látið, sá er kom Ísrael til að syndga _ einnig þetta altari og fórnarhæðina reif hann niður. Og hann brenndi aséruna og muldi hana mjölinu smærra.

16 En er Jósía sneri sér við og sá grafirnar, sem voru þar á fjallinu, þá sendi hann menn og lét sækja beinin í grafirnar, brenndi þau á altarinu og afhelgaði það samkvæmt orði Drottins, því er guðsmaðurinn hafði boðað, sá er boðaði þessa hluti.

17 Síðan sagði hann: "Hvaða legsteinn er þetta, sem ég sé?" Og borgarmenn svöruðu honum: "Það er gröf guðsmannsins, sem kom frá Júda og boðaði þessa hluti, sem þú hefir nú gjört, gegn altarinu í Betel."

18 Þá mælti hann: "Látið hann vera, enginn ónáði bein hans!" Þannig létu þeir bein hans og bein spámannsins, sem kominn var frá Samaríu, vera í friði.

19 Auk þess afnam Jósía öll hæðahofin, sem voru í borgum Samaríu, þau er Ísraelskonungar höfðu reist til þess að egna Drottin til reiði, og fór alveg eins með þau eins og hann hafði gjört í Betel.

20 Og hann slátraði öllum hæðaprestunum, sem þar voru, á ölturunum og brenndi mannabein á þeim. Síðan sneri hann aftur til Jerúsalem.

21 Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: "Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari."

22 Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga,

23 en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem.

24 Enn fremur eyddi Jósía þeim mönnum, er höfðu þjónustuanda, svo og spásagnamönnum, húsgoðum og skurðgoðum og öllum þeim viðurstyggðum, er sáust í Júda og Jerúsalem, til þess að fullnægja fyrirmælum lögmálsins, þeim er rituð voru í bókinni, sem Hilkía prestur hafði fundið í musteri Drottins.

25 Og hans maki hafði enginn konungur verið á undan honum, er svo hafði snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum, alveg eftir lögmáli Móse, og eftir hann kom enginn honum líkur.

Opinberun Jóhannesar 11:1-14

11 Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: "Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja.

Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.

Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda."

Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær, sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar.

Og ef einhver vill granda þeim, gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða.

Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja.

Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá.

Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur.

Menn af ýmsum lýðum, kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf.

10 Og þeir, sem á jörðunni búa, gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir, því að þessir tveir spámenn kvöldu þá, sem á jörðunni búa.

11 Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá.

12 Og þeir heyrðu rödd mikla af himni, sem sagði við þá: "Stígið upp hingað." Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá.

13 Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill, og tíundi hluti borgarinnar hrundi og í landskjálftanum deyddust sjö þúsundir manna. Og þeir, sem eftir voru, urðu ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina.

14 Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society