Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
23 Þetta eru síðustu orð Davíðs: Svo mælti Davíð Ísaíson, svo mælti maðurinn, er hátt var settur, hinn smurði Jakobs Guðs, ljúflingur Ísraels ljóða.
2 Andi Drottins talaði í mér og hans orð er á minni tungu.
3 Ísraels Guð talaði, bjarg Ísraels mælti við mig: "Sá sem ríkir yfir mönnum með réttvísi, sá sem ríkir í ótta Guðs,
4 hann er eins og dagsbirtan, þegar sólin rennur upp á heiðríkju-morgni, þegar grasið sprettur í glaðasólskini eftir regn."
5 Já, er ekki hús mitt svo fyrir Guði? Því að hann hefir gjört við mig eilífan sáttmála, ákveðinn í öllum greinum og áreiðanlegan. Já, allt sem verður mér til heilla og gleði, skyldi hann ekki veita því vöxt?
6 En varmennin, þau eru öll eins og þyrnar, sem út er kastað, því að enginn tekur á þeim með hendinni.
7 Hver, sem rekst á þau, vopnast járni og spjótskafti, og í eldi munu þau brennd verða til kaldra kola.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
4 Frá Jóhannesi til safnaðanna sjö, sem í Asíu eru. Náð sé með yður og friður frá honum, sem er og var og kemur, og frá öndunum sjö, sem eru frammi fyrir hásæti hans,
5 og frá Jesú Kristi, sem er votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar. Hann elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu.
6 Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.
7 Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum. Vissulega, amen.
8 Ég er Alfa og Ómega, segir Drottinn Guð, hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi.
by Icelandic Bible Society