Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 3

Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.

Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.

Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]

En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.

Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]

Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.

Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.

Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.

Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]

Fyrri bók konunganna 8:22-30

22 Og Salómon gekk fyrir altari Drottins í viðurvist alls Ísraelssafnaðar, fórnaði höndum til himins

23 og mælti: "Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú á himnum uppi eða á jörðu niðri, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þjóna þína, þá er ganga fyrir augliti þínu af öllu hjarta sínu,

24 þú sem hefir haldið það við þjón þinn, Davíð föður minn, er þú hést honum. Þú talaðir það með munni þínum og efndir það með hendi þinni, eins og nú er fram komið.

25 Efn nú, Drottinn, Ísraels Guð, við þjón þinn Davíð föður minn, það er þú hést honum, þá er þú sagðir: ,Eigi skal þig vanta eftirmann frammi fyrir mér, er sitji í hásæti Ísraels, ef synir þínir aðeins varðveita vegu mína með því að ganga fyrir augliti mínu, eins og þú hefir gengið fyrir augliti mínu.`

26 Lát nú, Ísraels Guð, rætast orð þín, þau er þú talaðir við þjón þinn, Davíð föður minn.

27 En mun Guð í sannleika búa á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist.

28 En snú þér, Drottinn Guð minn, að bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans, að þú heyrir ákall það og bæn, er þjónn þinn ber fram fyrir þig í dag:

29 að augu þín séu opin yfir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, er þú hefir um sagt: ,Þar skal nafn mitt búa` _ að þú heyrir bæn þá, er þjónn þinn biður á þessum stað.

30 Og heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir fram bera á þessum stað, já heyr þú hana þar er þú býr á himnum, og fyrirgef, er þú heyrir.

Markúsarguðspjall 13:9-23

Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýktir, og þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna, þeim til vitnisburðar.

10 En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.

11 Þegar menn taka yður og draga fyrir rétt, hafið þá ekki fyrirfram áhyggjur af því, hvað þér eigið að segja, heldur talið það, sem yður verður gefið á þeirri stundu. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur heilagur andi.

12 Þá mun bróðir selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.

13 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.

14 En þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar standa þar, er ekki skyldi _ lesandinn athugi það _ þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.

15 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan og inn í húsið að sækja neitt.

16 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.

17 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.

18 Biðjið, að það verði ekki um vetur.

19 Á þeim dögum verður sú þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar, er Guð skapaði, allt til þessa, og mun aldrei verða.

20 Ef Drottinn hefði ekki stytt þessa daga, kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra, sem hann hefur útvalið.

21 Og ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur,` eða: ,Þar,` þá trúið því ekki.

22 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra tákn og undur til að leiða afvega hina útvöldu ef orðið gæti.

23 Verið varir um yður. Ég hef sagt yður allt fyrir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society