Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 113

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

Fyrsta bók Móse 24:11-27

11 Og hann áði úlföldunum utan borgar hjá vatnsbrunni að kveldi dags, í það mund, er konur voru vanar að ganga út að ausa vatn.

12 Og hann mælti: "Drottinn, Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham.

13 Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn.

14 Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ,Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,` svarar: ,Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,` _ hún sé sú, sem þú hefir fyrirhugað þjóni þínum Ísak, og af því mun ég marka, að þú auðsýnir miskunn húsbónda mínum."

15 Áður en hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá kom Rebekka, dóttir Betúels, sonar Milku, konu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún skjólu sína á öxlinni.

16 En stúlkan var einkar fríð sýnum, mey, og enginn maður hafði kennt hennar. Hún gekk niður að lindinni, fyllti skjólu sína og gekk aftur upp frá lindinni.

17 Þá hljóp þjónninn móti henni og mælti: "Gef mér vatnssopa að drekka úr skjólu þinni."

18 Og hún svaraði: "Drekk, herra minn!" Og hún tók jafnskjótt skjóluna niður af öxlinni í hönd sér og gaf honum að drekka.

19 Og er hún hafði gefið honum að drekka, mælti hún: "Líka skal ég ausa vatn úlföldum þínum, uns þeir hafa drukkið nægju sína."

20 Og hún flýtti sér og steypti úr skjólu sinni í vatnsstokkinn, og hljóp svo aftur að brunninum að ausa vatn. Og hún jós vatn öllum úlföldum hans.

21 En maðurinn starði á hana þegjandi, til þess að komast að raun um, hvort Drottinn hefði látið ferð hans heppnast eða ekki.

22 En er úlfaldar hans höfðu drukkið nægju sína, tók maðurinn nefhring úr gulli, sem vó hálfan sikil, og tvö armbönd og dró á hendur henni. Vógu þau tíu sikla gulls.

23 Því næst mælti hann: "Hvers dóttir ert þú? Segðu mér það. Er rúm í húsi föður þíns til að hýsa oss í nótt?"

24 Og hún sagði við hann: "Ég er dóttir Betúels, sonar Milku, sem hún ól Nahor."

25 Þá sagði hún við hann: "Vér höfum yfrið nóg bæði af hálmi og fóðri, og einnig húsrúm til gistingar."

26 Þá laut maðurinn höfði, bað til Drottins

27 og mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfesti við húsbónda minn. Mig hefir Drottinn leitt veginn til húss frænda húsbónda míns."

Fyrra bréf Páls til Tímót 5:9-16

Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift

10 og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk.

11 En tak ekki við ungum ekkjum. Þegar þær verða gjálífar afrækja þær Krist, vilja giftast

12 og gerast þá sekar um að brjóta sitt fyrra heit.

13 Og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala.

14 Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis.

15 Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan.

16 Ef trúuð kona á fyrir ekkjum að sjá, skal hún sjá fyrir þeim, og eigi hafi söfnuðurinn þyngsli af, til þess að hann geti veitt hjálpina þeim, sem ekkjur eru og einstæðar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society