Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.
2 Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!
3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.
4 Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.
5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.
4 Bóas gekk upp í borgarhliðið og settist þar. Þá bar svo við, að lausnarmaðurinn gekk fram hjá, sá er Bóas hafði talað um. Bóas sagði: "Kom þú og sestu hér, þú þarna!" Og hann sneri þangað og settist niður.
2 Þá tók hann tíu menn af öldungum borgarinnar og sagði: "Setjist hér!" Og þeir settust niður.
3 Síðan sagði hann við lausnarmanninn: "Akurland það, er Elímelek frændi okkar átti, hefir Naomí selt, sú sem heim er komin úr Móabslandi.
4 Og ég hugsaði, að ég skyldi láta þig vita það og segja: ,Kaup það nú í viðurvist þeirra, er hér eru, og í viðurvist öldunga fólks míns.` Ef þú vilt leysa, þá leystu. En ef þú vilt ekki leysa, þá segðu mér frá því, svo að ég viti það. Því að enginn er til, sem getur leyst, nema þú, og ég eftir þig." Hinn sagði: "Ég ætla að leysa."
5 Þá sagði Bóas: "Um leið og þú kaupir landið af Naomí, hefir þú og keypt Rut hina móabítísku, ekkju hins framliðna, til þess að reisa nafn hins framliðna á arfleifð hans."
6 Þá sagði lausnarmaðurinn: "Ég get ekki leyst það handa mér, því að þá kynni ég að spilla arfleifð minni. Leys þú handa þér það, sem ég átti að leysa, því að ég get ekki leyst það."
7 Það var fyrrum siður í Ísrael við endurlausn og skipti, er menn vildu staðfesta allar gjörðir, að annar tók af sér skóinn og fékk hinum. Þetta var vottfesting í Ísrael.
8 Þá sagði lausnarmaðurinn við Bóas: "Kaup þú það handa þér!" og tók af sér skóinn.
9 Bóas sagði við öldungana og allt fólkið: "Þér eruð í dag vottar að því, að ég hefi keypt af Naomí allt það, sem Elímelek átti, svo og allt það, sem þeir Kiljón og Mahlón áttu.
10 Einnig hefi ég keypt Rut hina móabítísku, ekkju Mahlóns, mér að konu, til þess að reisa nafn hins framliðna á arfleifð hans, svo að nafn hins framliðna upprætist eigi meðal bræðra hans og úr borgarhliði hans. Þér eruð vottar þess í dag."
6 Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega.
7 Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, _ fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. _
8 En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.
9 Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni.
10 Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir.
11 Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir.
by Icelandic Bible Society