Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
10 Þá féll hún fram á ásjónu sína og laut niður að jörðu og sagði við hann: "Hvers vegna sýnir þú mér þá velvild að víkja mér góðu, þar sem ég þó er útlendingur?"
11 Bóas svaraði og sagði við hana: "Mér hefir verið sagt allt af því, hvernig þér hefir farist við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, og að þú hefir yfirgefið föður þinn og móður og ættland þitt og farið til fólks, sem þú þekktir ekki áður.
12 Drottinn umbuni verk þitt, og laun þín verði fullkomin, er þú hlýtur af Drottni, Ísraels Guði, þar sem þú ert komin að leita skjóls undir vængjum hans."
13 Rut sagði: "Ó, að ég mætti finna náð í augum þínum, herra minn, því að þú hefir huggað mig og talað vinsamlega við ambátt þína, og er ég þó ekki einu sinni jafningi ambátta þinna."
14 Er matmálstími kom, sagði Bóas við hana: "Kom þú hingað og et af brauðinu og dýf bita þínum í vínediksblönduna." Þá settist hún hjá kornskurðarmönnunum, og hann rétti henni bakað korn, og hún át sig sadda og leifði.
25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"
27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."
28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."
29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"
30 Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.
31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá.
32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.
33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann,
34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.
35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.`
36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?"
37 Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."
by Icelandic Bible Society