Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 28

28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.

Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.

Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.

Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.

Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.

Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.

Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.

Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.

Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.

Jesaja 59:9-19

Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu.

10 Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn.

11 Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur. Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss.

12 Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér.

13 Vér höfum horfið frá Drottni og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð.

14 Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.

15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.

16 Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.

17 Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.

18 Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.

19 Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram.

Fyrra almenna bréf Péturs 2:1-10

Leggið því af alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal.

Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis,

enda "hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður."

Komið til hans, hins lifanda steins, sem hafnað var af mönnum, en er hjá Guði útvalinn og dýrmætur,

og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist.

Því svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.

Yður sem trúið er hann dýrmætur, en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini

og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum, af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.

En þér eruð "útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans," sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.

10 Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir "Guðs lýður". Þér, sem "ekki nutuð miskunnar", hafið nú "miskunn hlotið".

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society