Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
42 Þá svaraði Job Drottni og sagði:
2 Ég veit, að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga.
3 "Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi?" Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi.
4 "Hlusta þú, ég ætla að tala. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig."
5 Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!
6 Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.
10 Og Drottinn sneri við högum Jobs, þá er hann bað fyrir vinum sínum; og hann gaf Job allt sem hann hafði átt, tvöfalt aftur.
11 Þá komu til hans allir bræður hans og allar systur hans og allir þeir, er áður höfðu verið kunningjar hans, og neyttu máltíðar með honum í húsi hans, vottuðu honum samhryggð sína og hugguðu hann út af öllu því böli, sem Drottinn hafði látið yfir hann koma. Og þeir gáfu honum hver einn kesíta og hver einn hring af gulli.
12 En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, og hann eignaðist fjórtán þúsund sauða, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur.
13 Hann eignaðist og sjö sonu og þrjár dætur.
14 Og hann nefndi eina Jemímu, aðra Kesíu og hina þriðju Keren Happúk.
15 Og eigi fundust svo fríðar konur í öllu landinu sem dætur Jobs, og faðir þeirra gaf þeim arf með bræðrum þeirra.
16 Og Job lifði eftir þetta hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði.
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram.
24 En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti.
25 Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.
26 Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri.
27 Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.
28 Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.
46 Þeir komu til Jeríkó. Og þegar hann fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda, sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður.
47 Þegar hann heyrði, að þar færi Jesús frá Nasaret, tók hann að hrópa: "Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!"
48 Margir höstuðu á hann, að hann þegði, en hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
49 Jesús nam staðar og sagði: "Kallið á hann." Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: "Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig."
50 Hann kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.
51 Jesús spurði hann: "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Blindi maðurinn svaraði honum: "Rabbúní, að ég fái aftur sjón."
52 Jesús sagði við hann: "Far þú, trú þín hefur bjargað þér." Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.
by Icelandic Bible Society