Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 34:1-8

34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.

Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.

Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.

Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.

Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.

Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.

Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.

Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.

Sálmarnir 34:19-22

19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.

21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.

22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.

Nehemíabók 1

Frásögn Nehemía Hakalíasonar. Í kislevmánuði tuttugasta árið, þá er ég var í borginni Súsa,

kom Hananí, einn af bræðrum mínum, ásamt nokkrum mönnum frá Júda. Spurði ég þá um Gyðinga, þá er undan komust, þá er eftir voru af hinum herleiddu, og um Jerúsalem.

Og þeir svöruðu mér: "Leifarnar _ þeir er eftir eru af hinum herleiddu þar í skattlandinu, eru mjög illa staddir og í fyrirlitningu, með því að múrar Jerúsalem eru niður brotnir og borgarhliðin í eldi brennd."

Þegar ég heyrði þessi tíðindi, þá settist ég niður og grét og harmaði dögum saman, og ég fastaði og var á bæn til Guðs himnanna.

Og ég sagði: "Æ, Drottinn, Guð himnanna, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.

Lát eyra þitt vera gaumgæfið og augu þín opin, til þess að þú heyrir bæn þjóns þíns, þá er ég nú bið frammi fyrir þér bæði daga og nætur sakir Ísraelsmanna, þjóna þinna, með því að ég játa syndir Ísraelsmanna, er þeir hafa drýgt móti þér. Ég og ættfólk mitt höfum og syndgað.

Vér höfum breytt illa gagnvart þér og ekki varðveitt boðorðin, lögin og ákvæðin, er þú lagðir fyrir Móse, þjón þinn.

Minnstu orðsins, er þú bauðst Móse, þjóni þínum, segjandi: ,Ef þér bregðið trúnaði, mun ég tvístra yður meðal þjóðanna.

En þegar þér hverfið aftur til mín og varðveitið boðorð mín og breytið eftir þeim _ þótt yðar brottreknu væru yst við skaut himinsins, þá mun ég saman safna þeim þaðan og leiða þá til þess staðar, er ég hefi valið til þess að láta nafn mitt búa þar.`

10 Því að þínir þjónar eru þeir og þinn lýður, er þú frelsaðir með miklum mætti þínum og með sterkri hendi þinni.

11 Æ, herra, lát eyra þitt vera gaumgæfið að bæn þjóns þíns og bæn þjóna þinna, er fúslega óttast nafn þitt. Farsæl þjón þinn í dag og lát hann finna meðaumkun hjá manni þessum." Ég var þá byrlari hjá konungi.

Bréfið til Hebrea 7:11-22

11 Hefði nú fullkomnun fengist með levíska prestdóminum, _ en hann var grundvöllur lögmálsins, sem lýðurinn fékk _, hver var þá framar þörf þess að segja að koma skyldi annars konar prestur að hætti Melkísedeks, en ekki að hætti Arons?

12 Þegar prestdómurinn breytist, þá verður og breyting á lögmálinu.

13 Sá sem þetta er sagt um var af annarri ætt, og af þeirri ætt hefur enginn innt þjónustu af hendi við altarið.

14 Því að alkunnugt er, að Drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefur ekkert um presta talað, að því er varðar þá ættkvísl.

15 Þetta er enn miklu bersýnilegra á því, að upp er kominn annar prestur, líkur Melkísedek.

16 Hann varð ekki prestur eftir mannlegum lögmálsboðum, heldur í krafti óhagganlegs lífs.

17 Því að um hann er vitnað: "Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks."

18 Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust.

19 Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð.

20 Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs,

21 en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: "Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu."

22 Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society