Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 75

75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.

Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.

"Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.

Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]

Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!

Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"

Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,

heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.

Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.

10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.

11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.

Jobsbók 40

40 Og Drottinn mælti til Jobs og sagði:

Vill ámælismaðurinn þrátta við hinn Almáttka? Sá er sakir ber á Guð, svari hann þessu!

Þá svaraði Job Drottni og sagði:

Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? Ég legg hönd mína á munninn.

Einu sinni hefi ég talað, og endurtek það eigi, _ tvisvar, og gjöri það ekki oftar.

Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:

Gyrð lendar þínar eins og maður. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

Ætlar þú jafnvel að gjöra rétt minn að engu, dæma mig sekan, til þess að þú standir réttlættur?

Hefir þú þá armlegg eins og Guð, og getur þú þrumað með slíkri rödd sem hann?

10 Skrýð þig vegsemd og tign, íklæð þig dýrð og ljóma!

11 Lát úthellast strauma reiði þinnar og varpa til jarðar með einu tilliti sérhverjum dramblátum.

12 Auðmýk þú sérhvern dramblátan með einu tilliti, og troð þú hina óguðlegu niður þar sem þeir standa.

13 Byrg þú þá í moldu alla saman, loka andlit þeirra inni í myrkri,

14 þá skal ég líka lofa þig, fyrir það að hægri hönd þín veitir þér fulltingi.

15 Sjá, nykurinn sem ég hefi skapað eins og þig, hann etur gras eins og naut.

16 Sjá, kraftur hans er í lendum hans og afl hans í kviðvöðvunum.

17 Hann sperrir upp stertinn eins og sedrustré, lærsinar hans eru ofnar saman.

18 Leggir hans eru eirpípur, beinin eins og járnstafur.

19 Hann er frumgróði Guðs verka, sá er skóp hann, gaf honum sverð hans.

20 Fjöllin láta honum grasbeit í té, og þar leika sér dýr merkurinnar.

21 Hann liggur undir lótusrunnum í skjóli við reyr og sef.

22 Lótusrunnarnir breiða skugga yfir hann, lækjarpílviðirnir lykja um hann.

23 Sjá, þegar vöxtur kemur í ána, skelfist hann ekki, hann er óhultur, þótt fljót belji á skolti hans.

24 Getur nokkur veitt hann með því að ganga framan að honum, getur nokkur dregið taug gegnum nasir hans?

Bréfið til Hebrea 6:1-12

Þess vegna skulum vér sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans.

Vér förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og afturhvarfi frá dauðum verkum og trú á Guð, kenningunni um skírnir og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm.

Og þetta munum vér gjöra, ef Guð lofar.

Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, fengið hlutdeild í heilögum anda

og reynt Guðs góða orð og krafta komandi aldar,

en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðs son að nýju og smána hann.

Jörð sú, er drukkið hefur í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá, sem yrkja hana, fær blessun frá Guði.

En beri hún þyrna og þistla, er hún ónýt. Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd.

En hvað yður snertir, þér elskaðir, þá erum vér sannfærðir um að yður er betur farið og þér nær hjálpræðinu, þó að vér mælum svo.

10 Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.

11 Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast.

12 Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society