Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 39

39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."

Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.

Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:

"Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.

Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.

Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.

11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.

12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.

14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.

Jobsbók 32

32 Og þessir þrír menn hættu að svara Job, því að hann þóttist vera réttlátur.

Þá upptendraðist reiði Elíhú Barakelssonar Búsíta af Rams kynstofni. Upptendraðist reiði hans gegn Job, af því að hann taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði.

Reiði hans upptendraðist og gegn vinum hans þremur, fyrir það að þeir fundu engin andsvör til þess að sanna Job, að hann hefði á röngu að standa.

En Elíhú hafði beðið með að mæla til Jobs, því að hinir voru eldri en hann.

En er Elíhú sá, að mennirnir þrír gátu engu svarað, upptendraðist reiði hans.

Þá tók Elíhú Barakelsson Búsíti til máls og sagði: Ég er ungur að aldri, en þér eruð öldungar, þess vegna fyrirvarð ég mig og kom mér eigi að því að kunngjöra yður það, sem ég veit.

Ég hugsaði: Aldurinn tali, og árafjöldinn kunngjöri speki!

En _ það er andinn í manninum og andblástur hins Almáttka, sem gjörir þá vitra.

Elstu mennirnir eru ekki ávallt vitrastir, og öldungarnir skynja eigi, hvað réttast er.

10 Fyrir því segi ég: Hlýð á mig, nú ætla einnig ég að kunngjöra það, sem ég veit.

11 Sjá, ég beið eftir ræðum yðar, hlustaði á röksemdir yðar, uns þér fynduð orðin, sem við ættu.

12 Og að yður gaf ég gaum, en sjá, enginn sannfærði Job, enginn yðar hrakti orð hans.

13 Segið ekki: "Vér höfum hitt fyrir speki, Guð einn fær sigrað hann, en enginn maður!"

14 Gegn mér hefir hann ekki sett fram neinar sannanir, og með yðar orðum ætla ég ekki að svara honum.

15 Þeir eru skelkaðir, svara eigi framar, þeir standa uppi orðlausir.

16 Og ætti ég að bíða, þar sem þeir þegja, þar sem þeir standa og svara eigi framar?

17 Ég vil og svara af minni hálfu, ég vil og kunngjöra það, sem ég veit.

18 Því að ég er fullur af orðum, andinn í brjósti mínu knýr mig.

19 Sjá, brjóst mitt er sem vín, er ekki fær útrás, ætlar að rifna, eins og nýfylltir belgir.

20 Ég ætla að tala til þess að létta á mér, ætla að opna varir mínar og svara.

21 Ég ætla ekki að draga taum neins, og ég ætla engan að skjalla.

22 Því að ég kann ekki að skjalla, ella kynni skapari minn bráðlega að kippa mér burt.

Lúkasarguðspjall 16:19-31

19 Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði.

20 En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus.

21 Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans.

22 En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

23 Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans.

24 Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.`

25 Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst.

26 Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.`

27 En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns,

28 en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.`

29 En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.`

30 Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.`

31 En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum."`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society