Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
12 En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima?
13 Enginn maður þekkir veginn til hennar, og hana er ekki að finna á landi lifenda.
14 Undirdjúpið segir: "Í mér er hún ekki!" og hafið segir: "Ekki er hún hjá mér!"
15 Hún fæst ekki fyrir skíragull, og ekki verður silfur reitt sem andvirði hennar.
16 Eigi verður hún Ófírgulli goldin né dýrum sjóam- og safírsteinum.
17 Gull og gler kemst ekki til jafns við hana, og hún fæst ekki í skiptum fyrir ker af skíragulli.
18 Kóralla og krystalla er ekki að nefna, og að eiga spekina er meira um vert en perlur.
19 Tópasar Blálands komast ekki til jafns við hana, hún verður ekki goldin með hreinasta gulli.
20 Já spekin, hvaðan kemur hún, og hvar á viskan heima?
21 Hún er falin augum allra þeirra er lifa, og fuglum loftsins er hún hulin.
22 Undirdjúpin og dauðinn segja: "Með eyrum vorum höfum vér heyrt hennar getið."
23 Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar.
24 Því að hann sér til endimarka jarðar, lítur allt, sem undir himninum er.
25 Þá er hann ákvað þunga vindarins og ákvarðaði takmörk vatnsins,
26 þá er hann setti regninu lög og veg eldingunum,
27 þá sá hann hana og kunngjörði hana, fékk henni stað og rannsakaði hana einnig.
28 Og við manninn sagði hann: "Sjá, að óttast Drottin _ það er speki, og að forðast illt _ það er viska."
29 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:
2 Ó að mér liði eins og forðum daga, eins og þá er Guð varðveitti mig,
3 þá er lampi hans skein yfir höfði mér, og ég gekk við ljós hans í myrkrinu,
4 eins og þá er ég var á sumri ævi minnar, þá er vinátta Guðs var yfir tjaldi mínu,
5 þá er hinn Almáttki var enn með mér og börn mín hringinn í kringum mig,
6 þá er ég óð í rjóma, og olífuolían rann í lækjum úr klettinum hjá mér,
7 þá er ég gekk út í borgarhliðið, upp í borgina, bjó mér sæti á torginu.
8 Þegar sveinarnir sáu mig, földu þeir sig, og öldungarnir risu úr sæti og stóðu.
9 Höfðingjarnir hættu að tala og lögðu hönd á munn sér.
10 Rödd tignarmannanna þagnaði, og tunga þeirra loddi við góminn.
8 Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.
2 Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur.
3 Og annar engill kom og nam staðar við altarið. Hann hélt á reykelsiskeri úr gulli. Honum var fengið mikið reykelsi til þess að hann skyldi leggja það við bænir allra hinna heilögu á gullaltarið frammi fyrir hásætinu.
4 Og reykurinn af reykelsinu steig upp með bænum hinna heilögu úr hendi engilsins frammi fyrir Guði.
5 Þá tók engillinn reykelsiskerið og fyllti það eldi af altarinu og varpaði ofan á jörðina. Og þrumur komu og dunur og eldingar og landskjálfti.
by Icelandic Bible Society