Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
26 Þá svaraði Job og sagði:
2 En hvað þú hefir hjálpað hinum þróttlausa, stutt hinn máttvana armlegg!
3 En hvað þú hefir ráðið hinum óvitra og kunngjört mikla speki!
4 Fyrir hverjum hefir þú flutt ræðu þína, og hvers andi var það, sem gekk fram úr þér?
5 Andar hinna framliðnu í undirdjúpunum skelfast ásamt vötnunum og íbúum þeirra.
6 Naktir liggja undirheimar fyrir Guði og undirdjúpin skýlulaus.
7 Hann þenur norðrið út yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum,
8 hann bindur vatnið saman í skýjum sínum, og þó brestur skýflókinn ekki undir því,
9 hann byrgir fyrir ásjónu hásætis síns með því að breiða ský sitt yfir hana.
10 Marklínu hefir hann dregið hringinn í kring á haffletinum, þar sem mætast ljós og myrkur.
11 Stoðir himinsins nötra og hræðast ógnun hans.
12 Með mætti sínum æsir hann hafið, og með hyggindum sínum sundurmolar hann hafdrekann.
13 Fyrir andgusti hans verður himinninn heiður, hönd hans leggur í gegn hinn flughraða dreka.
14 Sjá, þetta eru aðeins ystu takmörk vega hans, og hversu lágt hvísl er það, sem vér heyrum! En þrumu máttarverka hans _ hver skilur hana?
9 Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.
10 Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.
11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð
12 og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.
13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"
14 Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.
15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.
16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.
17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."
by Icelandic Bible Society