Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.
2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.
7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"
10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.
13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;
20 Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði:
2 Fyrir því veita hugsanir mínar mér andsvör og af því að það sýður í mér:
3 Ég verð að hlusta á háðulegar ávítur, en andi minn gefur mér skilning að svara.
4 Veist þú, að svo hefir það verið frá eilífð, frá því er menn voru settir á jörðina,
5 að fögnuður óguðlegra er skammær og að gleði hins guðlausa varir örskotsstund?
6 Þó að sjálfbirgingskapur hans nemi við himin og höfuð hans nái upp í skýin,
7 þá verður hann þó eilíflega að engu eins og hans eigin saur, þeir, sem sáu hann, segja: Hvar er hann?
8 Hann líður burt eins og draumur, svo að hann finnst ekki, og hverfur eins og nætursýn.
9 Augað, sem á hann horfði, sér hann eigi aftur, og bústaður hans lítur hann aldrei framar.
10 Börn hans sníkja á snauða menn, og hendur þeirra skila aftur eigum hans.
11 Þótt bein hans séu full af æskuþrótti, leggjast þau samt með honum í moldu.
12 Þótt hið illa sé honum sætt í munni, þótt hann feli það undir tungu sinni,
13 þótt hann treini sér það og vilji ekki sleppa því og haldi því eftir í miðjum gómnum,
14 þá breytist þó fæðan í innýflum hans, _ í nöðrugall í kviði honum.
15 Auð gleypti hann _ hann verður að æla honum aftur, Guð keyrir hann úr kviði hans.
16 Nöðrueitur saug hann, tunga eiturormsins deyðir hann.
17 Hann má ekki gleðjast yfir lækjum, yfir rennandi ám hunangs og rjóma.
18 Hann lætur af hendi aflaféð og gleypir það eigi, auðurinn sem hann græddi, veitir honum eigi eftirvænta gleði.
19 Því að hann kúgaði snauða og lét þá eftir hjálparlausa, sölsaði undir sig hús, en byggði ekki.
20 Því að hann þekkti enga ró í maga sínum, þó fær hann eigi forðað því, sem honum er dýrmætast.
21 Ekkert komst undan græðgi hans, fyrir því er velsæld hans eigi varanleg.
22 Þótt hann hafi allsnægtir, kemst hann í nauðir, allt magn mæðunnar kemur yfir hann.
23 Þá verður það: Til þess að fylla kvið hans sendir Guð í hann sína brennandi reiði og lætur mat sínum rigna yfir hann.
24 Flýi hann fyrir járnvopnunum, þá borar eirboginn hann í gegn.
25 Hann dregur örina út, þá kemur hún út um bakið, og hinn blikandi oddur kemur út úr galli hans _ skelfing grípur hann.
26 Allur ófarnaður er geymdur auðæfum hans, eldur, sem enginn blæs að, eyðir honum, hann etur það, sem eftir er í tjaldi hans.
27 Himinninn afhjúpar misgjörð hans, og jörðin gjörir uppreisn í móti honum.
28 Gróði húss hans fer í útlegð, rennur burt í allar áttir á degi reiðinnar.
29 Þetta er óguðlegs manns hlutskipti frá Guði og arfleifð sú, sem honum er úthlutuð af hinum Almáttka.
15 Nú komu til Jesú farísear og fræðimenn frá Jerúsalem og sögðu:
2 "Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna? Þeir taka ekki handlaugar, áður en þeir neyta matar."
3 Hann svaraði þeim: "Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar?
4 Guð hefur sagt: ,Heiðra föður þinn og móður,` og: ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`
5 En þér segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: ,Það sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er musterisfé,`
6 hann á ekki að heiðra föður sinn [eða móður]. Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar.
7 Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir:
8 Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.
9 Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar."
by Icelandic Bible Society