Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.
2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.
7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"
10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.
13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;
17 Andi minn er bugaður, dagar mínir þrotnir, gröfin bíður mín.
2 Vissulega eru þeir enn að gjöra gys að mér! Auga mitt verður að horfa upp á móðganir þeirra!
3 Set veð, gakk í ábyrgð fyrir mig hjá þér, Guð, hver mun annars taka í hönd mér?
4 Því að hjörtum þeirra hefir þú varnað vits, fyrir því munt þú ekki láta þá sigri hrósa.
5 Hver sem með svikum framselur vini sína að herfangi, _ augu barna hans munu daprast.
6 Hann hefir gjört mig að orðskviði meðal manna, og ég verð að láta hrækja í andlit mitt.
7 Fyrir því dapraðist auga mitt af harmi, og limir mínir eru allir orðnir sem skuggi.
8 Réttvísir menn skelfast yfir því, og hinn saklausi fárast yfir hinum óguðlega.
9 En hinn réttláti heldur fast við sína leið, og sá sem hefir hreinar hendur, verður enn styrkari.
10 En komið þér allir hingað aftur, og ég mun ekki finna neinn vitran mann meðal yðar.
11 Dagar mínir eru liðnir, fyrirætlanir mínar sundurtættar, _ hin dýrasta eign hjarta míns.
12 Nóttina gjöra þeir að degi, ljósið á að vera nær mér en myrkrið.
13 Þegar ég vonast eftir að dánarheimar verði híbýli mitt, bý mér hvílu í myrkrinu,
14 þegar ég kalla gröfina "föður minn", ormana "móður mína og systur" _
15 hvar er þá von mín, já, von mín _ hver eygir hana?
16 Að slagbröndum Heljar stígur hún niður, þá er ég um leið fæ hvíld í moldu.
7 Því er það, eins og heilagur andi segir: Ef þér heyrið raust hans í dag,
8 þá forherðið ekki hjörtu yðar, eins og í uppreisninni á degi freistingarinnar á eyðimörkinni;
9 þar sem feður yðar freistuðu mín og reyndu mig, þótt þeir fengju að sjá verkin mín í fjörutíu ár.
10 Þess vegna varð ég gramur kynslóð þessari og sagði: Án afláts villast þeir í hjörtum sínum. Þeir þekktu ekki vegu mína.
11 Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.
12 Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.
13 Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir "í dag", til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.
14 Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.
15 Sagt er: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni" _
16 Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse?
17 Og hverjum "var hann gramur í fjörutíu ár"? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni?
18 Og hverjum "sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans," nema hinum óhlýðnu?
19 Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.
by Icelandic Bible Society