Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.
2 Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.
3 Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn
4 sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.
5 Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,
6 ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,
7 svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
8 já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]
9 Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."
10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.
13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,
14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,
15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.
8 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:
2 Hversu lengi ætlar þú slíkt að mæla og orðin í munni þínum að vera hvass vindur?
3 Hallar þá Guð réttinum, eða hallar hinn Almáttki réttlætinu?
4 Hafi börn þín syndgað móti honum, þá hefir hann selt þau misgjörð þeirra á vald.
5 En ef þú leitar Guðs og biður hinn Almáttka miskunnar _
6 ef þú ert hreinn og einlægur _ já, þá mun hann þegar vakna til að sinna þér og endurreisa bústað þíns réttlætis.
7 Þá mun þinn fyrri hagur virðast lítilfjörlegur, en framtíðarhagur þinn vaxa stórum.
8 Spyr þú hina fyrri kynslóð og gef þú gaum að reynslu feðranna.
9 Vér erum síðan í gær og vitum ekkert, því að skuggi eru dagar vorir á jörðunni.
10 En þeir munu fræða þig, segja þér það og bera fram orð úr sjóði hjarta síns:
11 "Sprettur pappírssefið þar sem engin mýri er? vex störin nema í vatni?
12 Enn stendur hún í blóma og verður eigi slegin, en hún skrælnar fyrr en nokkurt annað gras."
13 Svo fer fyrir hverjum þeim, sem gleymir Guði, og von hins guðlausa verður að engu.
14 Athvarf hans brestur sundur, og köngullóarvefur er það, sem hann treystir.
15 Hann styðst við hús sitt, en það stendur ekki, hann heldur sér fast í það, en það stenst ekki.
16 Hann er safarík skríðandi flétta í sólskini, sem teygir jarðstöngla sína um garðinn
17 og vefur rótum sínum um grjóthrúgur og læsir sig milli steinanna.
18 En ef hann er upprættur frá stað sínum, þá afneitar staðurinn honum og segir: "Ég hefi aldrei séð þig!"
19 Sjá, þetta er öll gleði hans, og aðrir spretta í staðinn upp úr moldinni.
20 Sjá, Guð hafnar ekki hinum ráðvanda og heldur ekki í hönd illgjörðamanna.
21 Enn mun hann fylla munn þinn hlátri og varir þínar fagnaðarópi.
22 Þeir sem hata þig, munu skömminni klæðast, og tjald hinna óguðlegu mun horfið vera.
7 En svo að ég minnist á það, sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu.
2 En vegna saurlifnaðarins hafi hver og einn sína eiginkonu og hver og ein hafi sinn eiginmann.
3 Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum.
4 Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama, heldur maðurinn. Sömuleiðis hefur og maðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama, heldur konan.
5 Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar.
6 Þetta segi ég í tilhliðrunarskyni, ekki sem skipun.
7 En þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina.
8 Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég.
9 En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.
by Icelandic Bible Society